Að gleðjast yfir litlu - eða miklu
Ég var næstum því dottinn í langa Moggabloggsfyrirsögn hérna, þessar sem eru lengri en færslurnar af því höfundurinn nær ekki að greina milli fyrirsagnar og meginmáls. En ég stoppaði mig af og skildi bara eftir slappa en stutta fyrirsögn. Svo á þetta að vera þankastrik þarna á milli en er bara bandstrik.
Gengur vel að skrifa í dag. Er á Cafe Cultura og þar er skemmtilegur og hryssingslegur bakgarður. Er að drekka dökkan Leffe sem ég hef eiginlega ekki efni á lengur, eða ætti ekki að panta mér skv. nýjum neysluviðmiðunum á mínu heimili, og ég er orðinn hálffullur af hálfri flösku. Þess vegna, m.a., drekk ég bara eina flösku.
Í sögunni er að verða til misskilningur vegna þess að fólk sem ætlar að hittast hittir í raun einhvern annan en það ætlaði að hitta. Og ég er endalaust að reyna að finna út úr því hvernig þessi misskilningur getur orðið safaríkur. Kaflinn paufast áfram, hægt og rólega, mánuðum saman. En nú þarf að margfalda vinnuhraðann.
Er jafnframt eitthvað að fikta við nýju, skemmtilegu aukavinnuna mína sem hefst formlega um mánaðamótin.
Fylgist síðan með sportinu á boltavöktum netmiðlanna og þar skorar Baldur Sigurðsson sigurmark KR í Eyjum, gegn gangi leiksins (sem er bara sætara) skv. þarstöddum, eftir töfraundirbúning frá Guðmundi Legend Benediktssyni.
Fyrsti sigurinn í Eyjum í 11 ár að veruleika og KR komið á toppinn. Yndislegt. Bráðum koma örugglega viðtöl við einhverja á fotbolti.net
Sendi félögum mínum sem eru frá Vestmannaeyjum hressilegar kveðjur með SMS og skála við sjálfan mig í Leffe.
Þetta er eiginlega of fullkomið líf. Það hlýtur einhver að koma bráðum og berja mig í hausinn með kylfu og binda enda á þessa hversdagsgleði mitt í kreppunni djúpu.