laugardagur, maí 23, 2009

Að gleðjast yfir litlu - eða miklu

Ég var næstum því dottinn í langa Moggabloggsfyrirsögn hérna, þessar sem eru lengri en færslurnar af því höfundurinn nær ekki að greina milli fyrirsagnar og meginmáls. En ég stoppaði mig af og skildi bara eftir slappa en stutta fyrirsögn. Svo á þetta að vera þankastrik þarna á milli en er bara bandstrik.

Gengur vel að skrifa í dag. Er á Cafe Cultura og þar er skemmtilegur og hryssingslegur bakgarður. Er að drekka dökkan Leffe sem ég hef eiginlega ekki efni á lengur, eða ætti ekki að panta mér skv. nýjum neysluviðmiðunum á mínu heimili, og ég er orðinn hálffullur af hálfri flösku. Þess vegna, m.a., drekk ég bara eina flösku.

Í sögunni er að verða til misskilningur vegna þess að fólk sem ætlar að hittast hittir í raun einhvern annan en það ætlaði að hitta. Og ég er endalaust að reyna að finna út úr því hvernig þessi misskilningur getur orðið safaríkur. Kaflinn paufast áfram, hægt og rólega, mánuðum saman. En nú þarf að margfalda vinnuhraðann.

Er jafnframt eitthvað að fikta við nýju, skemmtilegu aukavinnuna mína sem hefst formlega um mánaðamótin.

Fylgist síðan með sportinu á boltavöktum netmiðlanna og þar skorar Baldur Sigurðsson sigurmark KR í Eyjum, gegn gangi leiksins (sem er bara sætara) skv. þarstöddum, eftir töfraundirbúning frá Guðmundi Legend Benediktssyni.

Fyrsti sigurinn í Eyjum í 11 ár að veruleika og KR komið á toppinn. Yndislegt. Bráðum koma örugglega viðtöl við einhverja á fotbolti.net

Sendi félögum mínum sem eru frá Vestmannaeyjum hressilegar kveðjur með SMS og skála við sjálfan mig í Leffe.

Þetta er eiginlega of fullkomið líf. Það hlýtur einhver að koma bráðum og berja mig í hausinn með kylfu og binda enda á þessa hversdagsgleði mitt í kreppunni djúpu.

miðvikudagur, maí 20, 2009

Heimskulegasta bloggfærsla allra tíma?

http://joiragnars.blog.is/blog/joiragnars/entry/880522/

Ég hef þann ósið að reita hár mitt yfir heimskulegum færslum á Moggablogginu, sérstaklega þegar bloggað er við áhugaverðar fréttir og fyrirsögn bloggsins tekur ekki af allan vafa um að textinn sé einhver þvæla. Það þýðir ekkert að segja mér að ég eigi ekki að lesa Moggabloggið ef það fer svona í taugarnar á mér, það er nefnilega mikið af mjög góðu og nauðsynlegu lesefni á Moggablogginu og þess vegna kanna ég það daglega.

Þetta þykir mér vera heimskulegasta bloggfærsla sem ég hef séð frá því ég byrjaði að lesa blogg.
Og fyrir utan að vera frámunalega, ólýsanlega og andstyggilega heimskuleg, þá er hún líka áhugavert dæmi um það sem sumir vinstri sinnar telja sig nú geta borið á borð vegna heimskreppunnar og brotlendingar frjálshyggjunnar. - Allt í einu er gamla Austur-Þýskaland orðið heilagt og ekki má víkja að því neikvæðu orði. Ekki einu sinni þó að í hlut eigi fyrrverandi þegn Austur-þýska alþýðulýðveldisins sáluga sem nú er kanslari sameinaðs Þýskalands. Ekki má heldur tala illa um Stasi. Þessi höfundur telur sig síðan hafa efni á að gera lítið úr gáfnafari Þýskalandskanslara. Heyr á endemi!

Nú er hægt að stofna nýjan flokk í Íslensku vefverðlaununum. Ég er búinn að finna sigurvegarann. Þið getið fundið upp nafn á flokknum.

þriðjudagur, maí 19, 2009

Fyrningin og fleira

http://pressan.is/Pressupennar/Lesagrein/ferd-an-fyrirheits/

Aftur langar mig að linka í minn gamla skólabróður, Ólaf Arnarson, en hann er einn kjarnmesti greinahöfundurinn þessa dagana og skrifar beinskeytt um það sem helst brennur á þjóðinni.

Mig langar til að koma með athugasemd við gagnrýni hans á fyrningarleiðina. Ólafur segir:

"Ekki hefur enn verið sýnt fram á það með rökum hvernig á að svipta eina helstu atvinnugrein þjóðarinnar verðmætum sínum en skilja hana eftir með skuldirnar öðru vísi en að leiði til hruns"

Það er nú það. Sjávarútvegur er af mörgum ástæðum afskaplega arðbær í augnablikinu. Gengi krónunnar vegur þar vitanlega þungt. Sjávarútvegsfyrirtækin eru hins vegar mörg hver í hrikalegum erfiðleikum vegna ofsalegra og misheppnaðra fjárfestinga í alls óskyldum greinum.
Er hægt að þola það að arðsemi fiskveiða brenni upp á báli slíkra skulda? - Er ekki nær að kvótinn komist í hendur fyrirtækja sem eru ekki skuldug og geta þar með rekið sig með almennilegum hagnaði? - Verða hin ofurskuldsettu sjávarútvegsfyrirtæki ekki einfaldlega að fara í gjaldþrot og rétturinn að komast í hendur þeirra sem geta grætt á þessu?

Það sem Ólafur segir um ræðu Bjarna Benediktssonar í gærkvöld er hárrétt. Ég varð nánast miður mín af að hlusta á ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins. Hér talar ekki foringi breiðfylkingar.

Næstlélegasta ræða kvöldsins var ræða Sigmundar Gunnlaugssonar en þar var það fremur formið en innihaldið sem klikkaði. Er drengurinn svona hræðilega lélegur ræðumaður eða var þetta bara byrjandastress? Í sjónvarpsviðtölum er hann yfirvegaður og hnitmiðaður. Þetta var eins og að horfa á umskipting.

Útlendingar

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item266244/

Mér finnst það ekkert slæm tilhugsun að þýskur banki eigi Kringluna. Voru ekki einmitt Íslendingar sem kunnu ekki fótum sínum forráð sífellt að eignast erlendar verslanakeðjur?
Það er miklu betra að þýskir bankar eigi íslensk fyrirtæki en að íslenska ríkið sé að burðast með þau.

Um auðlindirnar gildir svo allt öðru máli.

sunnudagur, maí 17, 2009

Hrópandinn í eyðimörkinni

http://pressan.is/Frettir/Lesafrett/pressuuttekt-neydarastand-nu-tharf-tafarlaust-ad-gripa-til-adgerda//

Egill Helgason kallaði Ólaf Arnarson hrópandann í eyðimörkinni í Silfrinu í dag. Það er rétt sem sumir hafa verið að benda mér á að ofanlinkuð grein Ólafs er skyldulesning fyrir þá sem vilja vera inni í umræðunni í dag. Mér þótti flata niðurfærsluleiðin fáránleg fyrst en nú er að renna upp fyrir mér að hún snýst um fleira en að létta á skuldabyrði illa staddra heimila og gera í leiðinni vel við þá sem standa vel. Það eru miklu fleiri þættir sem þarna spila inn í, t.d. bráðnauðsynleg aukning neyslu og efasemdir um réttmæti skuldagreiðslna Íslendinga.

Svo er það AGS sem krefst þess að við keyrum allt í þrot hér með absúrd ofurvöxtum. Hvað gerist ef við förum ekki að þeirra ráðum?

  • Hugsanlega forðum við okkur frá öðru hruni sem AGS kann að að vera að steypa okkur í með ráðgjöf sinni
  • Hugsanlega fáum við ekki aðra greiðslu af láninu frá AGS sem hvort eð er hefur ekki viljað greiða okkur

Hverju er þá eiginlega að tapa?

Svo er það hitt hagfræðisjónarmiðið sem m.a. birtist í grein Ólafs Mixa í Fréttablaðinu í gær. Að við þurfum háa stýrivexti vegna þess að endurreisn þessa efnahagslífs byggist á sparnaði. Hvernig má þetta vera? Þurfum við sparnað eða þurfum við aukna neyslu til að forða okkur frá endanlegu þroti og byggja upp á ný?

Ræðst múgurinn á Seðlabankann í kjölfar næstu vaxtaákvörðunar?

Húslistamenn Café Roma

Þeir eru tveir. Annar þeirra er ég. Fyrir stuttu var komið fyrir leðursófa, sófaborði og bókahillum í horni kaffistofunnar. Í hillurnar laumaði ég þremur bókum eftir sjálfan mig. Auðvitað les þær enginn nema kannski eigandinn einhvern tíma. Hana langar a.m.k. að lesa sögurnar sem gerast beinlínis hér á kaffihúsinu (t.d. Fyrsti dagur fjórðu viku og kafli úr Hliðarspori). En aðallega finnst mér "næs" að hafa bækurnar hérna sjálfur fyrir augunum ef ég gýt þeim í áttina að bókahillununum.

Hinn húslistamaðurinn er líklega áhrifameiri í útbreiðslu listar sinnar meðal gesta staðarins. Lengi vel hamraði hann vísindaskáldsögur á ensku á fartölvuna sína hér en undanfarna mánuði virðist hann hafa lagt ritstörfin á hilluna og snúið sér að myndlist. Hann rissar upp andlitsmyndir á dagblöðin sem hann les hér. Þannig að ef maður flettir dagsgömlum eða eldri dagblöðum á staðnum má iðulega finna í þeim myndir eftir hann. Þær eru nánast að verða ígildi merkingar kaffihússins á dagblaðakosti sínum.