laugardagur, október 09, 2004

Til hamingu, Auður Ólafsdóttir, með Tómasarverðlaunin. Handritin voru hátt í sjötíu og því er borðleggjandi að Auður hefur skotið nokkrum þekktum höfundum ref fyrir rass.

Samruni svokallaðrar hámenningar og svokallaðrar lágmenningar hefur til skamms tíma tekist afar vel í breyttum efnistökum Lesbókar Morgunblaðsins. Í dag er hins vegar skotið langt yfir markið með forsíðugrein um Robbie Williams. Þar með er ekki lengur um að ræða samruna menningargreina heldur afstæðishyggju. Í sjálfu sér er ekkert rangt við að popp- eða rokktónlist eigi fulltrúa á forsíðu Lesbókarinnar en málið er að Robbie Williams er ekki merkilegur tónlistarmaður þó að hann eigi sína spretti. Ekki nema að afstaða Lesbókarinnar sé orðin sú að allt sé jafn merkilegt. Það er svo auðvelt að skjóta á svona karla eins og mig sem dirfast enn að gæðameta og segja að Spiderman 2 sé léleg kvikmynd, en það er í raun hugleysi og algjört stefnuleysi að gera öllu jafnhátt undir höfði. Þröstur Helgason hefur gert góða hluti í Lesbókinni sem var algjörlega stöðnuð þegar hann tók við blaðinu en núna hefur hann borið af leið. Eða hvar endar þetta? Verður næsta forsíðugrein um Britney Spears og sú þarnæsta um klámmyndastjörnu? Kæri Þröstur, þetta er bara rugl og bull. Snúðu af þessari leið.

föstudagur, október 08, 2004

Í framhaldi af færslunni minni um Fólk með Sirrý í gær. Ég ítreka að ég er ekki að finna að þættinum sem mér finnst ágætur né þessum tiltekna þætti í þáttaröðinni, sem einmitt var afar athyglisverður. Það sem ég set spurningamerki við eru þau viðhorf sem komu fram í viðtali við lesbíuna (það liggur við að ég setji gæsalappir utan um orðið lesbía, en látum það liggja á milli hluta). Það sem mér leikur forvitni á að vita er hvað pólitískt réttrúaðir segja um þessa sögu.

Pólitískur réttrúnaður í kynferðismálum er m.a. svona:

Mikill stuðningur við málstað og réttindi samkynhneigðra. - (Gott mál að mínu viti)

Mikil og hatrömm barátta gegn klámi og vændi. (Mjög misjafn málflutningur að mínu viti, oft hlaðinn einföldunum og fordómum)

Áhersla á fjölskylduna og einingu hennar. (Gott mál)


Hvað höfum við í þessum þætti? Kona gerist lesbía, ekki vegna þess að hún kemur út úr skápnum eftir áratuga lygi og þjáningar, nei vegna þess að hún SÖKKVIR SÉR NIÐUR Í KLÁM OG LÍFERNI SEM TEKUR MIÐ AF BOÐSKAP KLÁMSINS uppgötvar hún á sér nýjar hliðar og verður lesbía.

Í kjölfarið rústar hún fjölskyldu sinni.


Hvernig rímar þetta við feminisma dagsins í dag?

fimmtudagur, október 07, 2004

Frábærar fréttir úr handboltaheiminum. Ég hef beðið eftir því í mörg ár að Viggó Sigurðsson yrði ráðinn landsliðsþjálfari. Viggó er maðurinn! Til hamingju, Viggó!

Ég uppgötvaði á mér konsvervatíva og smáborgaralega hlið í gærkvöld. Kannski segja sumir að slíkt ætti ekki að koma á óvart þegar ég á í hlut, en málið er að þetta snerist um kynferðismál þar sem ég hef alltaf talist í frjálslyndari kantinum. Ég hef t.d. aldrei gefið tilefni til að vera sakaður um hómófóbíu, viðurkenni neyslu á léttu klámi og hef ekki fordóma gagnvart flestri kynlífshegðun sem hefur hvorki með börn né málleysingja að gera.

Í gærkvöld var þátturinn Fólk með Sirrý á dagskrá Stöðvar 2. Þar var viðtal við lesbíu sem hafði komið úr skápnum eftir langt hjónaband og barneignir. Og hvernig hafði þetta borið til? Hafði manneskjan áratugum saman lifað í hræðilegum blekkingarleik og reynt að bæla niður raunverulegar tilfinningar sínar? Hafði hana skort kjark á gelgjuskeiðinu til að gangast við tilfinningum sínum vegna fordóma í umhverfinu og leiðst út í hefðbundið fjölskyldumynstur á skjön við raunverulegar tilfinningar sínar? Nei. Hún og maðurinn hennar höfðu sökkt sér niður í kynóra, legið í klámmyndum og síðan byrjað að stunda makaskipti og hópkynlíf. Í þessari djúpköfun hjónanna í myrkviði lostans uppgötvaði konan að hún væri í raun lesbía og að í örmum annarrar konu væri hún í rauninni hún sjálf.

Þessu fylgdi um síðir skilnaður sem manninum og börnunum tókst að kyngja. Börnin voru stödd í þættinum, ungt og huggulegt fólk, sem Sirrý tók stutt viðtal við. Þau virtust hafa sætt sig bærilega við þróun mála. Síðan klappaði allur salurinn fyrir lesbíunni frelsuðu og Sirrý færði henni sápukassa og eitthvert dót frá þáttarsponsor. - Allir virtust vera innilega glaðir, eins og þeir hefðu orðið vitni að sögu sem endar vel. Mín líðan var hins vegar blanda af tómleika og skelfingu. Ég leit á konuna mína sem ég veit að er ekki lesbía en samt, en samt, er ekkert öruggt í þessu lífi? Nei, hún Erla mín verður mín áfram.

En. Ég hef t.d. ekkert á móti því að gift fólk stundi makaskipti. Ég gæti ekki gert það sjálfur, það myndi enda með ósköpum. En fantasían er skemmtileg. Hins vegar eru hlutir eins og makaskipti og hópsex ekki viðurkennd kynlífshegðun almennt, og þáttur Sirríar, sem er ágætur fyrir sitt leyti, er það penn og borgaralegur, að hann myndi yfirleitt ekki fjalla um slíkt kynlíf á jákvæðan hátt. - En þegar málið snýst um homma og lesbíur þá virðist einhvern veginn allt vera leyfilegt. Skyndilega var frásögn af makaskiptum og því sem einhvern tíma hefði verið kallað saurlifnaður hjóna, orðið eitthvað jákvætt og fagurt, af því það stuðlaði að því að kona varð lesbía. Og börnin. Einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að þetta fólk hefði fengið virkilega slæma meðferð, það hefði verið farið illa með það án þess það gæti nokkuð við því gert.

Og fjandinn hafi það: Það er alltaf sorglegt og skelfilegt þegar fjölskyldu er rústað, það er ekki tilefni til að gleðjast yfir því og klappa yfir því í sjónvarpsþætti.

Elfriede Jelinek, er nafn nýja Nóbelsverðlaunahafans í bókmenntum. Austurrísk skáldkona. Hvers vegna gerist það æ ofan í æ að ég þekki ekki nafn Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum, hef aldrei heyrt þá nefnda áður? Ég meina, það er ekki eins og ég lesi ekki neitt! Að mínu viti er þetta reyndar mjög jákvætt. Ekki kæmi mér á óvart að margir af bestu rithöfundum heims væru lítt þekktir, jafnvel einhverjir þeirra ekki útgefnir. Snilldin lagar sig nefnilega ekki að markaðslögmálunum og hentugleika útgáfubransans. Og fáir utan Íslands vissu hver Halldór Laxness var þegar hann fékk Nóbelinn árið 1955.

miðvikudagur, október 06, 2004

Það mun a.m.k. birtast eitt viðtal við mig um bókina fyrir jólin. Ég hafði samband við Vesturbæjarblaðið og hann bauð mér að velja hvort ég vildi vera í næsta blaði eða því þarnæsta. Ég valdi þarnæsta. Ég er auk þess byrjaður að undirbúa opið útgáfuteiti sem verður í lok október eða byrjun nóvember.

Var deiglan.com ekki einhvern tíma vefur ungra hægri manna? Og er hún núna orðin vinstri sinnaður vefur? Eru ungir vinstri menn líka í Sjálfstæðisflokknum? Ég segi ekki meira um þetta, varpa bara fram spurningunni.

mánudagur, október 04, 2004

Reykingamaður er ekki það sama og reykingamaður. Ég reyki að meðaltali eitt box af Cafe Creme vindlum á viku (tíu smávindlar í boxi). Stundum aðeins meira, stundum minna. Ég reyki aldrei á þannig stöðum að það geti orðið öðrum til ama, oftast fara reykingarnar fram úti á svölum heima á kvöldin. Eflaust er þetta ekki hollt, en af einhverjum ástæðum hef ég getað fiktað við þetta í tíu ár án þess að fíknin hafi ágerst. Önnur tegund af reykingamanni er sá sem fálmar reglulega eftir sígarettupakkanum í brjóstvasann og skutlar upp í sig sígarettu á hálftímafresti. Ég veit ekki hvers vegna ég get notað tóbak án þess að ánetjast því, hafandi í huga hvað ég hef alltaf átt erfitt með að hafa hemil á matarneyslu.

Cafe Creme boxin eru ákaflega fallega hönnuð, með mynd af rjúkandi kaffibolla utan á. Oftast reyki ég léttari tegundina, þessa í ljósbláu boxunum, því hún er enn bragðbetri. Um daginn var hún uppseld í sjoppu einni og ég keypti brúna boxið, með þeim sterkari. En búið var að eyðileggja hönnunina á boxinu með því að setja ljótan flennistóran borða yfir fram- og afturhlið með reykingaandróðri. Þvílíkt smekkleysi. Það drepur sig enginn á smávindlum. Er ekki hægt að láta áróðurinn nægja handa sígarettuþrælunum? Sígarettupakkar eru hvort eð er ekkert flottir í útliti og sígarettur svo vondar á bragðið að manni verður óglatt af þeim. Og hvers vegna í ósköpunum reykir fólk sígarettur með mentholbragði? Af hverju fær sér það ekki bara mentholbrjóstsykur?

sunnudagur, október 03, 2004

Eru einhverjir Zappa-sérfræðingar sem lesa þessa síðu? Í sumar byrjaði ég aftur að hlusta á plötuna Apostrophe og þar er að finna frábært lag í hálfgerðum gospelstíl með kröftugu píanóundirspili og laglegri melódíu, sem heitir Uncle Remus. Það er farið að angra mig eins og hver önnur árátta að ég skil ekki textann í laginu. Hann virðist eitthvað hafa með að það gera að vera ungur og uppreisnargjarn, taka þátt í mótmælum og fremja skemmdarverk, en hvaða vísanir eru í textanum og hver er þessi Uncle Remus? ("Have you seen us, Uncle Remus/We look pretty smart in these clothes, yes we do/Unless we get sprayed with a hose.) - Ef einhver skyldi vita þetta þá yrði ég þakklátur.