Ungur hrollvekjustrákur að gefa út skáldsögu hjá Bjarti, Jökull Valsson. Meðal áhrifavalda hans er Stephen King. Þessi strákur er að framkvæma það sem ábyggilega margt ungt fólk hefur dreymt um. En honum virðist hafa tekist það. Athyglisvert. Kannski gef ég þessa einhverjum unglingi í jólagjöf.
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
föstudagur, nóvember 05, 2004
Er að fara hitta Hjörvar Pétursson í hádeginu. Er að lesa spennandi óbirta sögu eftir hann. Velti því fyrir mér hvort ég eigi eftir að sjá þá sögu innan spjalda á næsta eða þarnæsta ári. Það er aldrei að vita. - Mála stofuna um helgina. Rosalega verð ég feginn þegar því er lokið. Þá verður bæði útgáfuteitinu og stofumáluninni lokið. Útgáfuteitið var að vísu ekki leiðinlegt eins og málningarvinna er, en hvorttveggja hefur þó verið eins og farg á mér sem vil helst lifa tíðindalausu lífi og fiska eftir sögum úr þögninni og ímynduðu lífi annarra, fólki sem líður hjá glugga kaffihússins þar sem ég sit einn og grufla.
fimmtudagur, nóvember 04, 2004
Vel heppnað útgáfuteiti í gærkvöld, milli 40 og 50 gestir, flestir á mínum vegum. En merkilegt er að geta ekki drukkið 3-4 bjóra án þess að vera slappur daginn eftir. Þetta endar með því að ég gerist algjör bindindismaður. Aumingja fyllibytturnar. Hvers konar líðan er það að vera á fimmtugsaldri eða eldri þunnur í hverri viku? Ekki á sig leggjandi.
miðvikudagur, nóvember 03, 2004
Útgáfukynning á Kaffi Reykjavík í kvöld kl. 21. Vonast til að sjá sem flesta.
Hvernig er það með Moggann? Hingað til hefur ekki þurft stórmenni til að fá birta fréttatilkynningu þar. Eins gott að Skrudda birti auglýsingu í Fréttablaðinu. Annars myndi enginn vita af þessu.
mánudagur, nóvember 01, 2004
Hvernig var þetta aftur? Þegar ég var ungur áttu skáldverk að vera með einhverjum hætti marxísk, lýsa firringu verkamannsins í kapítalísku samfélagi. - Síðan kom gott tímabil þar sem skáldverk áttu umfram allt að vera vel skrifuð og voru eingöngu dæmd á forsendum listarinnar. En hvað er að gerast núna? Aftur er ég farinn að rekast á það í ritdómum að bækur eru dæmdar úr leik á einhverjum allt öðrum forsendum en fagurfræðilegum, nefnilega þeim að þær virðist ekki hafa til að bera réttar skoðanir. - Um daginn rakst ég á mikinn reiðilestur um skáldsögu vegna samskipta ungrar aðalpersónu hennar við vændiskonu. Jafnframt lýsti ritdómarinn yfir reiði yfir því að bókin hefði verið þýdd fyrir þýðingarstyrk. - Í Lesbók Morgunblaðsins um helgina var skáldsaga Coehlos dæmd ótæk vegna þess að hún lýsti ekki vændi eftir þessari forskrift: Vændi er glæpur þar sem vændiskonan er saklaus en glæpamaðurinn er viðskiptavinurinn. - Geta ekki svona ritdómar bara birst í Veru? Ég eiginlega frábið mér að þurfa að sjá svona lagað í main-stream bókmenntaritum á borð við kistan.is og Lesbókina. Gott og vel, vændi er böl. Flestar vændiskonur eru án efa óhamingjusamar. En í skáldskap þarf ekki hið viðtekna ávallt að ríkja, sannur skáldskapur birtir okkur m.a. þá staðreynd að lífið er óútreiknanlegt í margbreytileika sínum og rétt eins og í lífinu má finna hamingjusama vændiskonu í skáldsögu, því í lífinu og sönnum skáldskap er fólk óendanelga fjölbreytt en ekki allir steyptir í sama mót líkt og í hugarheimi þeirra sem aðhyllast pólitíska nauðhyggju.