laugardagur, janúar 08, 2005

Það ríkir ákveðin kreppa í íslenskum stjórnmálum sem ég vona að vari sem lengst. Helsta orsök kreppunnar er nefnilega skortur á alvöruvandamálum. Við glímum við svokölluð "lúxusvandamál" eins og greint var frá í snjöllum áramótapistli á timinn.is um daginn. Kalda stríðið og efnhagsöngþveitið á síðari hluta síðustu aldar gat af sér mun meiri mælsku á Alþingi. Flestir þingmenn tala í klisjum og hafa fátt markvert fram að færa einfaldlega vegna þess að það er um svo lítið að tefla. Völd stjórnmálamanna hafa verið minnkuð stórkostlega og efnahagsvandi eins og við þekktum hann til skamms tíma er ekki lengur til.

Forsætisráðherrann nýi er afar óvinsæll vegna þess að hann þykir ekki nógu skemmtilegur. Segir það nú ekki ýmislegt um firringuna sem velmegunin og vandamálaleysið hefur skapað í þessu samfélagi? Forveri hans í embætti formanns Framsóknarflokksins var gríðarlega vinsæll forsætisráðherra, enda þótti hann mannlegur og spontant. Hins vegar var allt í kaldakoli hérna í efnahagsmálum þegar hann fór með völd. Megum við sem lengst búa við blómlegt efnahagslíf, tíðindalítil stjórnmál og litlausa stjórnmálamenn. Það er nóg til af öðrum skemmtikröftum.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Guttesen ætlar að hjálpa mér að lappa upp á síðuna á næstunni, setja inn myndir, linka á þá sem mér líkar vel við eða sérlega illa, og setja inn eitthvert fast hliðarefni, t.d. smásögur. Einhverjir snillingar sögðu á dögunum að ég væri mesti nörd bæjarins og Guttesen sá næstmesti, aðallega fyrir að vera hændur að meistaranum. Þetta verða þá falleg nördakvöld með bjór og spjalli. Við kíkjum á þetta í næstu viku og klárum málið þegar ég kem heim frá Þýskalandi.

Það rifjaðist upp fyrir mér æskuminning um daginn: Ég sit tvítugur (já, ég kalla þann aldur æskuár, krakkaormarnir ykkar) að aldri og skrifa í stílabók með Lamy-kúlupenna sem mér finnst fallegur en er allt of sleipur svo rithöndin er ekki einu sinni góð, hvað þá textinn. Ég lét mig samt dreyma um að ég væri að skrifa alvöru sögu, góða smásögu með lifandi andrúmslofti og fullorðnu fólki sem ég skildi, eða kafla í góðri skáldsögu. Og ég lét mig dreyma um að ég væri búinn að skrifa og gefa út nokkrar bækur, og ætti vinnuherbergi þar sem ég sæti við skriftir og veggirnir væru þaktir bókum sem ég væri búinn að lesa. Ég ætti síðan konu og börn og væri kannski í skemmtilegu starfi meðfram ritstörfunum.

Kvöldið sem þessi minning rifjaðist upp sat ég inni í vinnuherberginu mínu á Tómasarhaga fyrir framan tölvuna, ég horfði á bókahillurnar í kringum mig, tók fram nýju bókina mína sem gefin var út í haust og horfði á textann á skjánum: næstu bók í smíðum.

Konan og börnin voru sofandi. Mig langaði til að vekja konuna og segja henni frá draumnum sem hefði ræst en stillti mig. Ég fann köttinn og sagði honum frá þessu. Hann varð ekki gáfulegri á svipinn en hann á vana til.

Síðan settist ég aftur við tölvuna og feisaði baslið sem skriftir eru, eilíft hangs og efasemdir, glugg í bækur, leiðindi, klámvafr (sem ég er því miður búinn að leggja á hilluna vegna vírusaógnana), andriki.is, rithringur.is, tölvupóstur, nyhildruslur.is, googla sig upp (helvítið kvað googla sig upp daglega); halda áfram að skrifa, þurrka út, fara inn í eldhús og éta yfir sig eða standast freistinguna og fá sér vindil ....

hnoða síðan saman einni síðu og svo annarri -

og ímynda sér þess á milli að þetta sé bara gaman: að sitja blístrandi við tölvuna og láta þetta streyma út úr sér. Þannig eru hins vegar bloggskrifin, en svoleiðis jukk var aldrei partur af draumnum.

Hvenær byrjuðu menn fyrst að spá því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins myndi springa? Þetta er þriðja ríkisstjórn flokkanna í röð og ég held að ég hafi alveg örugglega heyrt svona spádóma fyrst áður en fyrsta kjörtímabilið var á enda, 1999. Síðan heyrist þetta reglulega og spádómarnir tóku kipp eftir stólaskiptin í haust. Nú geta menn haft sínar skoðanir á þessari ríkisstjórn en ég hef aldrei skilið þessar pælingar um stjórnarslit. Þeim fylgja frasar eins og "valdþreyta", sem raunar er líka notaður í annarri merkingu og fær þá heldur meira vægi, og að "þreyta og pirringur" sé "á stjórnarheimilinu." - Mér er þetta algjörlega óskiljanlegt. Öll þessi ár hefur aldrei neitt gerst sem bent hefur til yfirvofandi stjórnarslita, ekki minnsti vottur af hættu um slíkt hefur nokkurn tíma legið í loftinu.

Ég held að mín næsta bók verði of einföld til að ég geti kallað hana skáldsögu með sjálfum mér þó að eflaust verði hún kynnt sem slík. Nóvella er orð sem hefur vaxið í notkun en þó ekki fest sig. Skáldsögur eru margradda, þær skipta um sjónarhorn, þær eru sinfóníur. Sögur eru lög. 100-150 blaðsíðna saga með 3 til 4 persónum er ekki skáldsaga. Kvikmyndir eru ekki skáldsögur, þær eru yfirleitt miklu styttri. -

En allt eru þetta sögur. Annað skiptir ekki máli.

Friðjón R. Friðjónsson fjallar um ofsóknir gegn samkynhneigðum á heimastjórnarsvæði Palestínumanna. Hann lýsir jafnframt Ísrael sem griðastað samkynhneigðra.

http://www.sus.is/greinar/nr/525

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Ég veit að þetta er dálítið háskólanemaleg færsla en ég verð að láta hana flakka. Hljómsveitin Divine Comedy, sem er í raun sólódæmi hins dásamlega tónlistarmanns Neil Hannon, er fjölskylduhljómsveitin á mínu heimili. Fátt hefur sameinað þessa litlu fjölskyldu betur en feikilega vel flutt og innileg lög þessa manns. Í dag rakst ég á dóm í Mogganum eftir Skarphéðinn Guðmundsson (sem mér finnst nota bene afar viðkunnanlegur og vel skrifandi tónlistarskríbent) um nýútkominn mynddisk með hljómsveitinni, Live at Palladium. Ég á ekki DVD-tæki en get samt ekki beðið eftir því að ná í eintak og stinga í tölvuna. Það verður frábært (svo maður noti nú virkilega frumlegt lýsingarorð eða þannig) að sjá og heyra öll þessi góðu lög flutt af risastórri hljómsveit með strengjum og öllu tilheyrandi.

Algengustu viðkvæðin þessa dagana eru: "Ef ég segi þér þetta þá máttu ekki fara að blaðra um það á þessari bloggsíðu þinni." Eða: "Ég vil ekki að þú sért að minnast á mig á þessari bloggsíðu þinni". Átti sáttastund með Skáldaspíruklíkunni í gærkvöld undir miðnættið á Hressó. Upplesturinn, sem ég þorði ekki að láta sjá mig á, hafði heppnast býsna vel og menn voru glaðir. Einn tók upp límbandsrúllu og sagði: "Nú skulum við líma fyrir túlann á honum, síðan hendurnar saman og loks tærnar svo hann geti örugglega ekki athafnað sig á lyklaborðinu."

Ég er farinn að hlakka til HM í handbolta. Viggó fylgir ferskleiki og von. En auðvitað getur sú von brugðist. Annars er erfitt að finna fólk sem hefur áhuga á handboltalandsliðinu, allt þar til stórmótin hefjast og eins og einn leikur vinnst.

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Makalaust er það með USB-minnislykla, sem geta verið auglýsingakit frá Heineken eða hluti af Swiss Army vasahníf. Skyndilega er vísindaskáldsagan, ja eða a.m.k. eitthvað úr Nýjustu tækni og vísindum í gamla daga orðið að sjálfsögðum hlut, hversdagsleika. Maður stingur þessu litla dóti sem er miklu minna en gömlu disklingarnir, inn í tölvu og hleður hverju sem er á hann. Svo er þetta fest á lyklakippuna. Finnst ykkur þetta ekkert skrýtið? Nei, kannski ekki.

Já og svo fær maður ekki bara lengur íþróttaúrslit heldur mörkin sjálf í mynd í símanum rétt eftir að þau eru skoruð.

Í gamla daga spáði almenningur ekki fyrir um svona heldur frekar það að menn og skepnur myndu lifa á dufti og pillum og bílarnir fljúga í háloftum. Og svo yrði tunglið malbikað. En svo kom Herbal life ... en hitt bíður.


mánudagur, janúar 03, 2005

Hildur Helgadóttir hjúkrunarfræðingur rís upp til varnar uppfærslu Þjóðleikhússins á Öxinni og jörðinni í Mogganum í dag. Hildur er upprennandi rithöfundur og hefur birt skemmtilegar smásögur í Nýju lífi. Sjálfsagt fyrir fólk að lesa þetta til samanburðar við leikdómana um verkið. Sjálfur fer ég aldrei í leikhús og hef svo sem enga afsökun fyrir því.

Gleðilegt nýtt ár.

Áramótin: Matur, vín, flugeldar, samvera. Allt saman ánægjulegt og ekki í frásögur færandi. Er að skrifa núna á fullu og ekkert virðist geta stöðvað skáldsögugerðina, eins og stendur.

Mig langar hins vegar til að segja frá því eina óvenjulega sem gerðist um áramótin:

Þegar ég var að moka stéttina á gamlársdag heyrði ég háan hvell sem var þó líkari þyt en sprengingu, horfði á eitthvað sem líktist ryki þyrlast upp og síðan skalf ljósastaurinn í langan tíma. Í eitt andartak tengdi ég þetta við flugelda sem höfðu sprungið af og til allan daginn en svo rann upp fyrir mér að það gat ekki staðist. Ég gekk að ljósastaurnum og þarna lá grágæs í roti. Hún hafði einfaldlega flogið á straurinn. Klaufafugl. Ég hef af eðlilegum ástæðum samúð með fýsískum klaufaskap. Eftir dálitla stund rankaði hún úr rotinu, stóð upp, slagaði burt og tókst síðan á loft. Hana hafði greinilega ekki sakað.

Ennþá getur lífið komið manni á óvart þó að í smáu sé.