laugardagur, janúar 28, 2006

Ég var ánægður með jafnteflið gegn Dönum ekki síst þar sem það færir mér sirka 5000 kall í ágóða. Það er veðpottur í vinnunni og ég spáði 29-29. Ég held að enginn hafi komist svona nálægt niðurstöðunni.

Hitti Rúnar Helga og frú Guðrúnu ásamt minni Erlu á Segafredo í gærkvöld. Í kjölfarið fór ég einn á Ölstofuna þar sem ég hafði mælt mér mót við afar kunnuglegt andlit.

Á heimleiðinni hrópaði einhver úti á götu: Hei, meistari! - Ég þekkti ekki andlitið.

Skrepp á útsölu á eftir með Erlu og síðan er einhver viðbjóður á borð við bílaþvott. Í kvöld skrifa ég væntanlega niðri í vinnu.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Ísland - Serbía/Svartfjallaland 36-31

Jáááááááá!!!!!!!!!!!!!!!!! Fráááááááábært!!!

Horfði á leikinn í vinnunni, bjór og fínerí.

Óskar Árni er alltaf að græða peninga og virðist hafa komið sér upp þeim vana að vinna a.m.k. hálfa milljón á ári í bókmenntaverðlaun. Klæðaburðurinn þegar hann tók við Ljóðstafnum olli mér nokkrum vonbrigðum, skv. blaðaljósmynd. Hann var í e-k flauelsskyru sem hékk ógyrt yfir buxunum. Það var þá annað að sjá Sjón á sömu mynd, sá klikkar ekki á klæðaburðinum.

Ég hef ekki lesið verðlaunaljóðið en efast ekki um gæði þess enda hef ég lesið nánast allt sem Óskar Árni hefur skrifað mér til mikillar ánægju.

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Í Darmstadt skrifaði ég 5-10 blaðsíður á dag en síðan ég kom heim er ég búinn að skrifa 10 línur. Það þarf nokkurt átak til að rífa upp afköst aftur í þessu umhverfi, með fleytifullan vinnudag og heimilisamstur. En það mun koma.

Ég er strax farinn að spá hvaða borg ég eigi að velja á næsta ári.

Póstmódernisminn virðist aftur hafa náð völdum í málverndunarumræðunni. Morgublaðið birtir fyrirsögnina Tungumálið ekki í hættu, eða eitthvað á þá leið, á baksíðunni í gær. Þar er semsagt stillt upp álitsgjafa á öndverðum meiði við hinn afdráttarlausa og skorinorða málflutning Páls Valssonar. Og hver er álitsgjafinn? Einhver 17 stelpa.

Stór hluti af stuttu Kastljósi í kvöld fór síðan í það að spyrja bólugrafna unglinga um hvort tungan væri í hættu. Flestir sögðu nei og hvers vegna nei? Jú, af því bara.

Hvers konar uppgerðar líberalismi er nú þetta?

mánudagur, janúar 23, 2006

Ég byrjaði á Túristanum hans Stefáns Mána áður en ég fór utan en tók bókina ekki með mér til Þýskalands. Ég hélt síðan áfram með hana í gærkvöld og er nú búinn með um þriðjung. Ég get auðvitað engan veginn dæmt um heildarbrag verksins en það sem af er finnst mér sagan vera drepfyndin, frumleg, mjög vel stíluð og óútreiknanleg. Í augnablikinu á ég því mjög erfitt með að skilja hauskúpur og almenna útskúfun hennar á jólamarkaðnum. Satt að segja hefur þannig verið talað um þessa bók að ég átti ekki von á góðu og allra síst þessari ágætu skemmtan.

Ég tek ofan fyrir Páli Valssyni og sköruglegum ummælum hans um stöðu tungumálsins. Lausnin er m.a. sú að berja lestri og bókmenntum inn í ungviðið í skólum landsins og gera þar bara stólpakröfur. Og vakni áhuginn ekki þá blasir bara fallhættan við, það ætti ekki að verða erfiðara fyrir ungana að ná tökum á málinu en t.d. stærðfræði sem er sífelldur höfuðverkur margra.

Annars er sérstætt hvernig málvöndunarmenn rjúka skyndilega upp núna og það af miklum krafti. Einhvern veginn hefur málvöndun verið á undanhaldi undanfarin ár og ekki þótt fínt að bera upp áhyggjur af tungumálinu. Ég held almennt að póstmódernisminn muni eitthvað víkja á næstu árum og klassískt viðhorf í fagurfræði mun snúa aftur í kjölfar málræktunarinnar. Það mun því ekki nægja að lesa bara Arnald Indriðason til að komast í gegnum önn í bókmenntum í framhaldsskóla eins og er nú um stundir. Með fullri virðingu fyrir Arnaldi og til stuðnings fjölbreytninni vil ég segja að það gangi ekki, látið börnin líka berja sig í gegnum smásögur Gyrðis og ÁBS og síðan allt hitt gott, vinsælt og óvinsælt.

sunnudagur, janúar 22, 2006

Hallo, Leute! Ich bin wieder da!

Jæja, er staddur á Tómasarhaganum eftir þægilega flugferð frá Frankfurt. Darmtstadt er yndislegur háskólabær, bæði fallegur og vinalegur og þar átti ég góðar stundir. Það sem mest er um vert þá skrifaði ég heilar 50 blaðsíður sem skiptust jafnt í frumsamningu og endurskriftir (endurskriftirnar eru alveg jafntímafrekar og frumsamning þegar maður er bara að byrja á öðru uppkasti, það er ekkert sem líkist hreinritun). Mér líst nú mjög vel á þróunina á verkinu þó að það sé enn nokkuð langt frá því að vera fullgert.

Ég sá mér til ánægju að það verða Zappa-tónleikar hér á landi í sumar þó að Frank Zappa hafi verið dáinn í 13 ár. Mér líst vel á það og mæti örugglega.

Ég segi betur frá Darmstadt-dvölinni fljótlega.