föstudagur, maí 30, 2008

Heiðursmorð í Hamborg

16 ára stúlka frá Afganistan vildi lifa sama lífi og vinkonur hennar og skólasystur, t.d. mála sig, ganga um í fallegum fötum og tala við stráka. Foreldrar hennar misþyrmdu henni af þessum sökum og að endingu myrti bróðir hennar hana með 20 hnífstungum.

Heiðursmorð í Þýskalandi eru orðin 48 síðan árið 1996. Það er kannski ekki ógnarhá tala í samanburði við ýmsa aðra hörmungartölfræði, en engu að síður yfirborðið á víðtækara fjölskylduofbeldi meðal múslíma á Vesturlöndum. Fyrir hverja eina stúlku sem er myrt fyrir að vilja lifa eðlilegu lífi eru án efa mörg þúsund börn svipt eðlilegu lífi, eins og það að sækja sundtíma og skólaskemmtanir, eða fá að lifa lífi án íþyngjandi trúariðkana.

Morðin eiga sér ekki stað í vandræðafjölskyldum, líkt og þegar börnum er misþyrmt af foreldrum sem eru vitstola af vímuefnaneyslu. Ofbeldinu er ekki beitt af sadistum. Það á sér orsakir í blindu trúarofstæki sem ekki er hægt að skilja, forneskju sem grasserar í samfélögum múslíma á Vesturlöndum.

Það verður að berjast gegn múslímsku trúarofstæki á Vesturlöndum. Það er gjörsamlega óþolandi að það festi rætur.

Umræðan má ekki verða badmintonleikur á milli rasista annars vegar og öfgafullra fjölmenningarsinna hins vegar.

fimmtudagur, maí 29, 2008

Lélegur landsleikur

Einhver sjálfsblekking finnst mér vera í gangi út af þessum landsleik við Wales. Mér fannst þetta ekki góður leikur. Við héldum boltanum vel í fyrri hálfleik og réðum leiknum vegna þess að Walesverjar voru gjörsamlega áhugalausir. Íslenska liðið var hins vegar það bitlaust að það náði ekki að nýta sér þetta og fékk aðeins eitt hættulegt tækifæri í leiknum.

Vörnin var þokkaleg en það reyndi lítið á hana.

Sóknin var algjörlega bitlaus.

Ef við vinnum ekki miðlungslið sem er áhugalaust og arfaslakt í leiknum þá er ekki von á góðu.

Hins vegar hefur verið góð stígandi í úrslitum hjá liðinu undanfarið og það var frábært að vinna Slóvakíu á útivelli.

En hvers vegna í ósköpunum er Veigar Páll Gunnarsson ekki í landsliðinu? Sagði hann eitthvað óviðeigandi við Óla Jóh. eða Pétur P? Gunnar Heiðar er búinn að eiga marga slaka landsleiki undanfarið. Veigar Páll hefur fengið sárafá tækifæri með landsliðinu en blómstrað í norska boltanum.

sunnudagur, maí 25, 2008

Cafe Cultura

Einhvern tíma þegar bloggarinn á Badabing.is var að líta reiður og kannski timbraður um öxl mæltist honum eitthvað á þá leið að eina kaffihúsið sem hann þyldi væri í Alþjóðahúsinu á Hverfisgötu. Þar væri hann laus við íslenskan plebbaskap eða eitthvað, en hefði í kringum sig allra þjóða kvikindi.

Þetta kaffihús gæti verið frábær staður fyrir skriftir. En gallinn er sá að hingað kemur allt of mikið af hávaðasömu fólki. Sumt af því er allt í lagi, það er bara í hópum og hefur hátt, svona ungt lið sem ætti heima á Vegamótum, en inn á milli eru fyllibyttur og dópistar.

Allt á þetta hávaðasama fólk það sameiginlegt að vera Íslendingar.

Það er með öðrum orðum of mikið af Íslendingum á Cafe Cultura.

Ég segi þetta ekki til að vera með eitthvert fjölmenningarsmjaður. En heimurinn er hins vegar óvart þannig að Íslendingar eru hávaðasamir og útlendingar eru lágværir. Ég er reyndar hávaðasamur sjálfur en ekki þegar ég er einn.

Nú ætla ég að drífa mig niður í vinnu. Vonandi er friður þar.

Útbreiðsla garðsláttar

Bjarni Felixsson á rétt á garðslætti unglinga frá Reykjavíkurborg tvisvar á sumri. Hann fær fyrri sláttinn 11. júní. Spretta hefur verið mikil það sem af er vori og garðurinn er orðinn kafloðinn. Bjarni lætur sig dreyma um að "skáldið" eins og hann kallar nábúa sinn, dröslist eins og einu sinni út í garð með sláttuvélina áður en táningarnir koma. Hann nefnir þetta ekki við neinn en sendir þessar hugsanir milli hæða á Tómasarhaga 39.

ÁBS vaknar á sunnudagsmorgni með sólina glampandi á glugganum. Hann hefur vilyrði um að fá daginn fyrir sig enda eyddi fjölskyldan laugardeginum saman. Erla á ekki von á öðru en hann stígi á hjólið löngu fyrir hádegi og steðji upp á Hlemm. Hann heyrir á morgunspjall mæðginanna inni í eldhúsi:

Erla: Jæja, Kjartan minn. Hvað eigum við að gera saman í dag?
Kjartan: Ekki neitt.
Erla: Ég var að hugsa um að við gætum farið saman í sund.
Kjartan: Ég vil bara fara í sund ef við tökum einhvern vin minn með.
Erla: En mig langar til að vera ein með þér í sundi.
Kjartan: Þögn.

Aumingja Erla. Hún er alin upp í stórri fjölskyldu í litlu þorpi. Hún elskar löng fjölskylduboð. En hún býr með þremur egóistum og einstaklingshyggjumanneskjum.

ÁBS hugsar með sér uppi í rúminu að þessi dagur sé langur. Honum liggur ekki lífið á að fara burtu. Hann er auk þess jafnvel að hugsa um að sleppa leiknum í Hafnarfirði í kvöld og spara þar með mikinn tíma. Hvernig væri að byrja á því að slá helvítis garðinn svo það sé frá?

Ekki löngu síðar eru allir nema Freyja komnir út í garð. Og flestir nágrannarnir eru líka úti í garði. Sláttuvélin drepur á sér og ég kem henni ekki í gang aftur fyrr en Ingimar í nr. 41 segir mér að setja gúmmíhettuna fyrir kertið framan á en hettan dettur alltaf af þegar ég þjösnast með vélina í kafgresinu upp við grindverkið.

Erla byrjar að raka, þess á milli fer hún í sólbað ofan á trampólíninu því Kjartan og Egill vinur hans, sem þar hoppuðu rétt áðan, hafa hafa stolist inn í hús til að stela kexkökum eða fara í tölvuleik.

Maraþonhlauparinn í nr. 37 (þau hjónin skokka 30 kílómetra þá daga sem við Erla förum 8) ræsir sína sláttuvél, sem hann var að enda við að festa kaup á. Hann játar fyrir mér að hljóðið í minni sláttuvél hafi ýtt við honum. Hinn húðlati ÁBS hefur með öðrum orðum fengið nágrannann ekki bara til að slá garðinn heldur út í búð til að kaupa spánnýja sláttuvél. Tvö húsnúmer deila garði maraþonhlauparans og hann er orðinn leiður á því að slá einn allan garðinn. Hann slær því nákvæmlega bara helminginn og skilin milli loðna hlutans og hins nýslegna hljóta að virka verulega vandræðaleg á nágrannana. Nema þeim sé sama.

Annars er líf í flestum görðum. Börn að leik, konur að grafa mold upp úr beðum. Fallegur dagur í yndislegasta landi í heimi sem svo sannarlega hefur burði til að taka á móti mörgum flóttamönnum og greiða götu þeirra. Veita umkomulausum dálitla hlutdeild í þessum gæðum.

Danska fjölskyldan (ekki flóttamenn) í nr. 37 gefur sig á tal við mig. Þau voru í Stykkishólmi í gær og snæddu þar við höfnina. Þau fara til Danmerkur aftur fljótlega eftir sirka ársdvöl hér og eru yfir sig hrifin af Íslandi. Ég sagði þeim að Danmörk hefði gefið Íslandi 12 stig í Evróvisjón í gær og Ísland gefið Danmörku 12 stig. Þau höfðu ekki hugmynd að "kjánalega vísnakeppnin" hefði verið haldin í gærkvöld. Það segir nokkuð um keppnina að Frakkar séu farnir að syngja á ensku og Þjóðverjar, sú mikla músíkþjóð, geti ekki dröslast til að senda þangað fólk sem heldur lagi. Vonlaust stelpubandið þeirra var rammfalskt og lagið marflatt. Okkar fólk stóð sig frábærlega enda niðurstaðan 14. sæti af samtals 43 þjóðum, ef við tökum með þá keppendur sem unnu sér ekki sæti í úrslitum. Ég hef ekki áhuga á þessari tónlist en ég styð fagmennsku og við eigum að halda áfram að senda fagfólk í þessa keppni ef við viljum á annað borð taka þátt, en ekki niðurlægja okkur með aulafyndni. Látum aðra um það.

Upp úr klukkan eitt var Erla komin í símann og þar með hlaut ég að vera kominn í frí enda fyrir löngu búinn að klára garðsláttinn. Símtöl hennar geta tekið nokkrar klukkustundir. Um tvöleytið var hún a.m.k. enn í símanum og þá fór ég á hjólið, tölvutaskan á öxlinni, flauelsjakki, gallabuxur númer 38, stuttermaskyrta, órakað miðaldra smetti; og svo hjólað af stað.

Hvernig væri þá að reyna að skrifa eitthvað og hætta þessu bloggbulli?