föstudagur, október 17, 2008

Bókavertíðin

Það er eitthvað farið að glitta í bókajólin. Skrudda fer vel af stað, m.a. með tveimur forvitnilegum bókum sem ég hef þegar lesið, Alkasamfélagið og Litla stúlkan og sígarettan. http://www.skrudda.is/

http://www.uppheimar.is/frettirpage.asp?ID=1066
Þessi bók er komin úr prentun þó að ekki sé búið að dreifa henni. Höfundurinn bankaði upp á hjá mér á föstudagskvöldi rétt eftir að ríkið tók yfir bankana og færði Erlu áritað eintak (áritunin til mín). Sjálfur hékk ég á einhverju kaffihúsinu við skriftir til að geta fært einhverjum öðrum áritað eintak á einhverju dimmu föstudagskvöldi eftir eitt eða tvö ár.

Ég er auk þess byrjaður að lesa Ódáðahraun eftir Stefán Mána. Það er grípandi og skemmtileg lesning. Bækur Stefáns Mána í seinni tíð eru glæpasögur af því þær fjalla um glæpamenn, ekki af því í byrjun hefur einhver verið drepinn, lögreglumenn eru kynntir til sögunnar og yfirmaðurinn segir: "Guðbrandur skildi eftir sig fingraför í gluggakistunni heima hjá fórnarlambinu. Þeir voru viðskiptafélagar og við erum að fara yfir samskipti þeirra. Þórir, þú ferð og yfirheyrir ekkjuna og Svandís, þú yfirferð alla tölvupósta sem Sigrún hefur fengið síðustu mánuðina. Okkur grunar að Sigrún og Höskuldur hafi jafnvel átt í ástarsambandi." Slíkar frásagnir þykja mér ekki mjög spennandi þó að þær séu vel fléttaðar og skrifaðar af flínkum og mætum mönnum. En þjóðin elskar þessar bækur og myndirnar og þættina sem eru gerð eftir þeim.

Í Ódáðahrauni blandast viðskiptalífið glæpaheiminum en ég er bara búinn með 40 síður og aðalpersónan er ennþá bara dópsali og ofbeldismaður. Meira um það síðar.

fimmtudagur, október 16, 2008

Heppinn=góður


Það var sælutíð þegar Veigar Páll lék með KR á árunum 2002 til 2003 en liðið varð Íslandsmeistari bæði árin og Veigar Páll líklega besti maður liðsins ásamt þeim Arnari Gunnlaugssyni og Einari Þór Daníelssyni. Í íslensku úrvalsdeildinni dansaði hann með boltann um allan völl og fór illa með andstæðingana á ýmsan hátt. Í Noregi virðist hann fyrst og fremst vera markaskorari. Í íslenska landsliðinu er erfiðara um vik, oftast glíma sóknarmenn liðsins við marga varnarmenn í einu. Veigar Páll er þegar farinn að sýna að hann má við margnum, á betra með að halda boltanum undir pressu en margir fyrirennarar hans í framherjastöðunni.

Sigurmark Veigar Páls gegn Makedóníu hans í kvöld var blanda af heppni og snilli. Boltinn hefur tilhneigingu til að detta fyrir snillinga eins og hann og að þessu sinni skaust hann í rassinn á honum og þaðan beint fyrir fæturna. Meðalfótboltamaður panikerar og kinksar þegar hann fær svona óvænt færi á augabragði. Ekki Veigar Páll. Hann lagði boltann yfirvegað í netið á næstum sama sekúndubroti og hann datt svona lukkulega fyrir hann.

Veigar Páll er kominn á sinn rétta stað: í byrjunarliðið í landsliðinu. Þar á hann eftir að vinna sér fast sæti og slá í gegn á næstu árum. Ég spái honum auk þess samningi á meginlandinu á næstunni, vonandi í Þýskalandi.

Mér hefur alltaf fundist hann einn sá alflottasti. Hann á það til að fitna, sem mér finnst sérlega sympatískt, en í kvöld var hann í grennsta lagi. Greinilega í toppformi.

miðvikudagur, október 15, 2008

Valur? Ööhh ... nei!

- Hann langar til að við séum þarna. Það er ástæðan. Geturðu ekki skilið að þetta snýst ekki um þig?

- Ég er ekki að fara að horfa á einhvern handboltaleik í Valsheimilinu. Það er Ísland - Makedónía á sama tíma í sjónvarpinu. Ég meina, þetta er meistaraflokkur, það er ekki eins og HANN sé að keppa.

- Já, en þeir leiða leikmennina inn á völlinn í byrjun leiksins. Þess vegna fengum við öll boðsmiða. Hann er SVO spenntur fyrir þessu.

- Sko. Ég er búinn að horfa á hann spila næstum því hvern einasta leik sem hann hefur spilað með KR í fótbolta, ég hef gist með honum á móti úti á landi í fullum sal af hálfblandblautum strákum, ég hef mætt á alla foreldrafundi í KR - og þetta hefur þú ekki gert heldur ég! - og ég hef séð hann leiða meistaraflokksleikmenn KR inn á völlinn, og nú þegar honum dettur allt í einu í hug að fara að æfa handbolta með Val, af því vinur hans er þar, þá á ég að gera allt það sama þar?

- Það skiptir hann máli að við styðjum hann. Valur eða KR - eru þetta einhver trúarbrögð?

- Við erum KR-ingar. Þetta er KR-fjölskylda. Og það skiptir máli.

- Voðalega er þetta eitthvað heilagt hjá þér. Þetta snýst bara um að vilja að börnin manns æfi íþróttir og styðja þau í því.

- Hvers vegna gat hann ekki farið í Gróttu? Það hefði ekki verið vandamál. Það er ekki eins og við höfum flutt úr hverfinu. Við erum í miðju KR-hverfinu. Hann er að fara í annað hverfi.

- Af því það er gott handboltastarf í Val. Hann nýtur þess að vera þarna. Skiptir þig það ekki máli hvað hann hefur gaman af þessu?

- Ég styð hann. Ég hef stutt hann. En að í hvert skipti sem börnum dettur í hug að bæta við sig áhugamáli þá eigi foreldrarnir að hlaupa til ... ég meina, honum gæti dottið í hug að fara að æfa fimleika í Gerplu eða kúluvarp með Stjörnunni og í hvert skipti sem honum dettur eitthvað svona í hug þá á ég bara að hætta að vera KR-ingur og hlaupa til og mæta á hvern fund og viðburð.

- Ég hlusta ekki á svona bölvaða vitleysu! Ógurlegur barnaskapur er þetta!

- Það eru hefðir og menning í þessu, menning sem ég hef lifað í en þú ekki. Þú hefur engan áhuga á fótbolta eða handbolta. Það er ég sem horfi á boltaleiki, það er ég sem hef vakið áhuga hans á þeim.

- Það er ég sem keyri hann á æfingar. Ég hef áhuga á því sem hann er að gera, ég vil styðja hann. Þú hugsar bara um sjálfan þig.

- Það er merkilegt með ykkur kvenfólkið. Þið takið yfir karlamenningu eins og boltaíþróttirnar og breytið henni í einhver skylduverk og barnauppeldi. Ég meina, hann er ekki að leika í skólaleikritinu í Melaskóla, þetta er bara handbolti í Val, honum datt bara allt í einu í hug að mæta á handboltaæfingu með vini sínu og um leið þarf að ræsa okkur út eins og einhverja Víkingasveit.

- Við mætum þarna vegna þess að það er honum mikils virði. Geturðu ekki skilið það? Til þess að börn hafi áhuga á að æfa íþróttir þá þurfa foreldrarnir að styðja þau.

- Ég get horft á hann á handboltaæfingu með Val. Ég get farið og horft á hann keppa í sjötta flokki, en ég fer ekki að mæta á meistaraflokksleiki í Val bara af því hann er að leiða leikmennina inn á völlinn.

- Við þurfum kannski ekki að vera allan leikinn.

- Ég meina, það var gaman að sjá hann í markinu um daginn, á æfingunni. Ég veit að hann hafði gaman af því þegar ég sá markvörsluna hjá honum. En hvers vegna skiptir það hann máli að ég horfi á hann leiða leikmenn Vals inn á völlinn. Ætlar hann að segja: “Sjástu pabbi hvað ég hélt flott í höndina á kallinum?”

- Þetta er honum mikils virði, hann hlakkar til og hann langar að við komum með honum. Mér finnst það alveg næg ástæða.

- Þegar Malli var í ÍBV þá horfði pabbi hans aldrei á hann keppa, ekki fyrr en hann var kominn í meistaraflokk, því þá fór karlinn hvort eð er á völlinn.

- Já, finnst þér það til fyrirmyndar? Þú veist að þá voru allt aðrir tímar í barnauppeldi.

- Já, en munurinn á mér og þér er sá að þú keppist alltaf við að vera sammála tíðarandanum. Ef þú hefðir verið uppi á þessum tíma þá hefði þér fundist alveg eðlilegt hjá pabba hans Malla.

þriðjudagur, október 14, 2008

Ekki spara of mikið

Það þarf ekki hagfræðing til að átta sig á því að fólk á að spara í góðæri en eyða ef það mögulega getur í kreppu. Auðvitað eru margir ekki aflögufærir núna. En þeir sem eiga lausafé ættu ekki að horfa í hverja krónu og bregðast við kreppunni með því að nurla. Ef allir hugsa þannig verður kreppan ennþá meiri.

Ég hef enn ekki orðið fyrir fjárhagslegu kjaftshöggi af kreppunni. Sparnaðurinn ekki í hlutabréfum og enn er ekki búið að reka mig úr vinnunni. Auðvitað hefur kaupmátturinn hrunið, launin ekki hækkað í heilt ár, aukavinnan horfin og verðbólgan búin að vera 15 prósent lengi. Samt hef ég það ágætt og sem betur fer hafa fleiri það ennþá ágætt, hvað sem síðar kann að verða.

Og við sem höfum það ennþá gott eigum að eyða peningum, ekki búa okkur undir kreppuna með nurli. Reynum að halda lífi í viðskiptum. Kaupum hamborgara. Kaupum okkur inn á landsleikinn við Makedóníu. Kaupum okkur buxur og skyrtur.

Sömu skilaboð ætti að flytja fyrirtækjum sem ekki eru á vonarvöl. Ekki reka fólk nema það sé nauðsynlegt. Ekki hætta við að ráða í starfið sem ykkur langaði að ráða í nema að það sé óðs manns æði að ráða fólk. Ekki hætta við að ráða bara til að vera varkár í kreppunni.

Þeir sem eitthvað eiga þurfa að halda áfram að eyða. Þannig verður kreppan ekki meiri en óhjákvæmilegt er.

Slátur er fyrir þá sem þegar eru orðnir staurblankir. Hinir ættu að halda áfram að kaupa sér hitt og þetta. Það er í okkar allra þágu.