Konur uppseld
Ég held að málfræðilega ætti ég að skrifa "konur uppseldar". En það væri skrítið. Mér skilst að bókin hafi verið prentuð í innan við 1000 eintökum. Kannski 750. Nýhil gaf út í einhverju bríaríi af ástæðum sem mér eru ekki að fullu kunnar. Bókin kom seint út og var ekkert auglýst, ekki einu sinni í Bókatíðindum. En hún fékk afdráttarlaust lof í sjónvarpinu og það dugði til að klára upplagið. Líklega hefði selst mun meira af henni ef meira hefði verið prentað. Mér gæti skjátlast en samkvæmt mínum heimildum er þetta fyrsta bók Steinar Braga sem hreyfist eitthvað. Hinar hafa líka fengið mjög góða dóma en þetta var svo afdráttarlaust og áberandi núna að það réð úrslitum. Sem segir manni að markaðssetning er alls ekki það eina sem skiptir máli í bókabransanum.
Ég var að skipta bókum áðan og ætlaði að fá Konur en hún var auðvitað ekki til. Vonandi prenta þeir meira eftir áramót.