laugardagur, febrúar 07, 2009

Fyrsti dagurinn í "nýju vinnunni"

Erla þurfti að mæta í myndatöku fyrir ársskýrslu Íslandspósts (ritverk sem ég prófarkalas og skrifaði jafnvel að hluta hér á árum áður). Síðan fer hún á skíði. Hún keyrði mig upp á Café Roma enda í leiðinni.

Þegar við kvöddumst gat ég sagt í fyrsta skipti við svona tilefni: "Jæja, best að vinna fyrir kaupinu sínu."

Svo sé ég að menn eru eitthvað að rífast um starfslaunin á blogginu. Mér finnst það bara gaman og ekki hvarflar að mér að blanda mér í umræðurnar. En þeim sem leggja þar orð í belg langar mig samt til að segja að rithöfundar verða mjög glaðir þegar þeir fá bréfið með tilkynningu þar að lútandi. Jafnvel þeir sem fá bara þrjá mánuði. Glaðir og þakklátir. Ef það skyldi vera einhver hughreysting. Sjáið bara þennan: http://www.norddahl.org/2009/02/ljo%c3%b0a%c3%bey%c3%b0ingar-fyrir-ritlaun/

Það segir hins vegar ekkert í bréfinu um að ég eigi að blogga fyrir peninginn svo það er best að koma sér að verki.

föstudagur, febrúar 06, 2009

3ja mánaða starfslaun

Ég las um starfslaunavælið í mér hjá Jakob Bjarnar í Fréttablaðinu í morgun.

Upp úr hádegi var síðan komið bréf með tilkynningu um að ég hlyti 3ja mánaða starfslaun rithöfunda.

Engin tengsl geta verið þarna á milli því nefndin hafði örugglega lokið störfum þegar ég skrifaði bloggfærsluna.

Aðeins 60 manns hlutu starfslaun að þessu sinni en 163 sóttu um.

Ég er mjög þakklátur fyrir stuðninginn og er mér mikið í mun að standa undir þessu með dugnaði og góðum vinnubrögðum. Þetta hefur líklega í för með sér að ég get gefið út bók í haust.

Smásagnanámskeiðið fór af stað í gærkvöld og fannst mér þetta heppnast vel. Mér líst afskaplega vel á hópinn minn og spennandi verður sjá hvað kemur út úr þessu.

Meira um það síðar.

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Nokkrir góðir dagar án Íslensku

Ég hef ekki komið beinum orðum að starfslokum mínum hjá Íslensku auglýsingastofunni þar sem ég hef talið slík skrif viðkvæm fyrir fyrirtækið. En ég lauk þar störfum síðastliðinn föstudag og kvaddi í mikilli vinsemd. Íslenska er eftir því sem ég best veit vel rekið og skuldlítið fyrirtæki. Svakalegur samdráttur varð hins vegar á auglýsingamarkaði strax um mitt síðasta ár og í tveimur atrennum var störfum fækkað. Þá var nokkrum vinum mínum sagt upp. Mitt starf virtist hins vegar mjög öruggt.

Ég fór samt að hugsa minn gang. Að ég hefði verið býsna lengi þarna og ef ég ætlaði að breyta til væri eins gott að fara að gera eitthvað í því enda bara nokkur ár í fimmtugt. Og alltaf hefur það setið í mér að vera ekki búinn að klára neitt háskólanám. Ég velti þessu fyrir mér fram og aftur og talaði um það við Erlu. Ætti ég kannski að segja upp næsta sumar og byrja í háskólanum í haust?

Bankahrunið tók hins vegar af mér ómakið. Auglýsingastofur sem töldu sig hafa lokið sínum niðurskurði þurftu nú að hugsa allt upp á nýtt.

Síðan um áramótin hef ég beðið með nokkurri óþreyju eftir að losna og því var kveðjustundin á föstudaginn fremur ánægjuleg fyrir mig.

Allt tekur enda. Ef mér hefði verið sagt þegar ég var ráðinn í júní 2003 að fimm og hálfu ári síðar yrði mér sagt upp vegna kreppu þá hefði mér bara fundist það fínn díll.

Ég er skráður í 35 einingar í Háskólanum á þessu misseri. BA-námið klára ég auðveldlega vorið 2010 en það fer eftir verkefnastöðu hvort ég tek uppeldis- og kennslufræðin líka næsta vetur. Það yrði strembinn pakki og ég myndi ekki geta gert neitt annað á meðan en stunda námið.

Þetta misseri verður hins vegar frekar auðvelt jafnvel þó að ég þurfi m.a. að skrifa BA-ritgerðina núna á næstu mánuðum. Ég finn að ég ræð vel við þessar 35 einingar þó að ég sé að gera heilmargt annað meðfram. Álagið í auglýsingabransanum undanfarin ár og puðið við ritstörfin hefur skilað af sér ansi vel rútíneruðum heila sem getur unnið hratt, vel og skipulega.

Ágætlega hefur gengið að afla launaðra verkefna meðfram náminu. Námskeiðaskráningin í Mími hefur gengið vel og allt útlit fyrir að ég nái tvöföldu rennsli af smásagnanámskeiðinu. Meiri óvissa er um "blogg"-námskeiðið, þ.e. pistla- og greinaskrif, þetta sem fjölmiðlunum fannst svo spennandi (og ég er þeim þakklátur fyrir kynninguna). Miklu fleiri skrá sig í smásögurnar en pistlaskrifin. Mikið óskaplega hefðu margir bloggarar samt gott af tilsögn. En þeir eru kyndugar og þrjóskar skepnur og ég held að bloggarar sem skrifa illa, jafnvel afspyrnuilla, vilji endilega gera það áfram, helst bulla út í eitt.

Smásögur:
http://mimir.is/index.php?option=com_mtree&task=viewlink&link_id=469&Itemid=365

Pistla- og greinaskrif:
http://mimir.is/index.php?option=com_mtree&task=viewlink&link_id=453&Itemid=365

Hinn verkefnapakkinn eru textaskrif og þýðingar fyrir hugbúnaðarfyrirtæki, sannkölluð iðnaðarskrif. Góður peningur í því en erfið vinna.

Ég hef því tryggar tekjur líklega út vorið en enga hugmynd hef ég um hvað tekur við í sumar. Rithöfundurinn óskar sér atvinnuleysis því þá gæti ég klárað bók fyrir haustið. Óskaplega væri hins vegar gaman að fara að detta inn á starfslaun rithöfunda næstu árin og fyllilega verðskuldað myndu sumir segja. Þó ekki væri nema 3 mánuði á ári, þ.e. yfir sumartímann. Það er dálítið magnað að horfa upp á mér töluvert yngri kunningja detta inn á þessi laun, fólk sem jafnvel er að leita til mín um ráðleggingar og aðstoð við skrif sín, höfundar sem eru miklu minna þekktir en ég og með minna á bakvið sig. Þetta hef ég verið að upplifa í seinni tíð þegar árin eru aðeins byrjuð að færast yfir. Makalaus skortur á því sem enskumælandi kalla "chemistry" hjá mér og þessum launasjóði, svona eins og misheppnað stefnumót hjá efnilegu pari, eitthvað sem ætti að ganga upp, en af óskiljanlegum ástæðum þá kviknar enginn neisti.

Þessir fyrstu þrír dagar án Íslensku hafa verið feykilega ánægjulegir. Ég hef yfrið nóg að gera en ræð mér sjálfur og það er skemmtileg tilbreyting. Ég vinn skólaverkefni og launuð verkefni í vinnuherberginu heima á Tómasarhaga en sinni skáldskapnum með handskriftum á Café Roma. Sat þar í dag og drakk í mig mannlífið á milli þess sem ég dundaði við að finna tengingar á milli persóna í næstu bók, bók sem ég veit ekki enn hvort er skáldsaga eða tengdar smásögur. Kannski hvorttveggja. - Þá líkar Erlu prýðilega að ég er orðinn aktívari heima þar sem ég get ekki lengur skýlt mér á bak við skyldudvöl á auglýsingastofu til kl. sex alla daga. Ég er farinn að elda oní okkur og fara í Bónus einn og þvíumlíkt.

Ég er uppfullur af orku. Lífið er stutt og maður á að starfa.

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Staðfesta eða tískugelt

Flestum ef ekki öllum gengur gott til í þjóðmálaumræðu. Engu að síður verða sumir svo óheppnir að fá á sig stimpil gjammara og tækifærissinna.

Margir sem hæst lofuðu útrásina geltu að stjórnvöldum fyrir að tala óvirðulega um fjármálaöflin eða reyna að leggja stein í götu þeirra. Þar spöruðu menn ekki gífuryrði og samsæriskenningar.

Þeir hinir sömu gelta nú að stjórnvöldum fyrir að hafa ekki haft hemil á fjármálaöflunum.

Sá sem þorir að synda á móti straumnum verðskuldar óneitanlega meiri aðdáun en ofannefndir.
Þess vegna tekur fólk miklu meira mark á t.d. Vilhjálmi Bjarnasyni og Þorvaldi Gylfasyni en t.d. ÓRG og HH svo tveir andlegir leiðtogar þjóðarinnar séu nefndir.

ÓRG ætti að segja af sér. Enginn krefur hins vegar rithöfunda um afsagnir. Tilmælin til HH ættu frekar að vera þau að einbeita sér að skáldskapnum og láta aðra um að berja á ráðherrabíla, einhverja sem lofsungu ekki útrásina.

mánudagur, febrúar 02, 2009

Nýir ráðherrar

Ég sá viðtöl við tvo nýja ráðherra í kvöld.

Ég hlustaði á Steingrím og gat tekið undir nákvæmlega allt sem hann sagði.

Síðan heyrði ég í Ögmundi og þar var mættur hættulegur ráðherra. Hann er þegar búinn að afnema innritunargjöld sem hljómar fallega. En það kostar. Að hleypa manni sem er heltekinn af meintri réttlætiskennd í dýrasta ráðuneytið, er ábyrgðarlaus leikur á þessum tímum.

Steingrímur gæti orðið að skaffa mikla hátekjuskatta og komast yfir mikið af undanskotseignum til að fjármagna eyðslu Ögmundar.

Ég held að vinsæll heilbrigðisráðherra sé stjórnmálamaður á villigötum. Þetta er embætti þar sem fólk verður að fórna eigin stundarvinsældum fyrir þjóðarhag, þ.e. ríkiskassann.