föstudagur, febrúar 13, 2009

Smásagnaævintýri í Mími

http://mimir.is/index.php?option=com_content&task=view&id=552&Itemid=1

Óhætt er að smásagnanámskeiðið í Mími hafi gengið afskaplega vel. Fólk er að gera stórfína hluti og mér finnst eins og flestum þyki í senn erfitt og skemmtilegt að skrifa. Margar spennandi hugmyndir hafa fæðst í fyrstu textum nemenda og fín tilþrif í stíl komið í ljós. Mikil gerjun í gangi, smásagnalestur, smásagnaskrif, upplestur og umfram allt umræður og skipst á hugmyndum.

Við erum núna byrjuð að taka fyrir ýmis tæknibrögð góðra smásagnahöfunda og margt bendir til að nemendur mínir verði fljótir að tileinka sér sum þeirra.

Annað rennsli af smásagnanámskeiðinu hefst 19. mars. Skráning gengur vel en nokkur pláss eru ennþá laus. Á linknum fyrir ofan og neðan er frétt um námskeiðið á heimasíðu Mímis auk skráningar.

http://mimir.is/index.php?option=com_content&task=view&id=552&Itemid=1

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

Geir Haarde í hnotskurn

Geir er spurður hvort hann hafi rætt við Gordon Brown eftir hryðjuverkalögin.
Geir segir nei.
Hann er spurður hvers vegna ekki.
Hann segir: "Ég hefði kannski átt að gera það."

Það var þetta aðgerðaleysi, þetta endalausa hik í öllum málum, sem var orðið svo óþolandi að líklega urðu margir kjósendur Sjálfstæðisflokksins dauðfegnir þegar þessi stjórn fór frá og við fengum ramma en miklu ákveðnari vinstri stjórn.

Því miður, Geir.

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Hörður Torfa og kó - upp á Bessastaði með ykkur!

http://eyjan.is/blog/2009/02/10/olafur-ragnar-ekki-haegt-ad-aetlast-til-thess-ad-vid-borgum-innistaedur-hja-kaupthingi-i-thyskalandi/

Er ekki nokkur leið að fá manninn til að hætta þessu helvítis blaðri?

Drengir

Kjartan mútaði mér til að fara með sig og vini sínum í bæinn til að kaupa Pókemon-myndir í Nexus með því að bjóða mér fótboltaleikjamót í Fifa 2009 með þeim báðum. Sammælst var um að hittast fyrir utan Háskólabíó klukkan þrjú. Ég var þá að koma úr Fílunni hjá Páli Skúlasyni á Háskólatorgi (við spjölluðum saman í hléinu, því hann kannaðist við mig en gat ekki komið mér fyrir sig; ég rifjaði upp fyrir honum að hann hefði kennt mér tvö eða þrjú námskeið rétt fyrir og um Viðeyjarviðreisn DO og JBH; "betra er seint en aldrei", sagði ég, ég væri mætti aftur til að klára fíluna hans og skrifa BA-ritgerð hjá Gunnari Harðarsyni).

Þegar ég kem að Háskólabíó eru drengirnir orðnir þrír, Kjartan og tveir bekkjarfélagar. Þeir voru að koma út úr Landsbankanum, hver með sitt rjúkandi plastmál. Kjartan með espressóbolla og nokkra sykurmola, hinir tveir með tepoka ofan í heitu vatni; þeir höfðu semsagt allir þegið ókeypis veitingar þessa banka sem áður var allsnægtahirsla sem öllum um veitti allt sem um var beðið svo að segja; en nú borgum við og í framtíðinni þessir strákar ofboðsskuldir og vanrækslusyndir eigendanna.

Drengirnir sötruðu og sykurvættu þessa drykki sem þeim eru ekki tamir, einfaldlega af því þeir voru í boði og þeir voru fullorðins og spennandi. Þetta var óskaplega fyndin sjón og inspírandi.

mánudagur, febrúar 09, 2009

Við - þeir

http://www.visir.is/article/20090209/FRETTIR01/807865029/-1

Er einhver bunker-stemning í Seðlabankanum? Hvers vegna er þessi sami starfsmaður bankans alltaf að lenda í útistöðum við mótmælendur?

Bankastjórar bankans eru hámenntaðir og eflaust mjög vel stæðir menn sem væsir ekki um í tilverunni þó að þeir missi starfið sitt, ekki eins og 200-400 þúsund króna fólkið sem missir vinnuna (og er ekki svo heppið að geta farið að halda smásagnanámskeið og fá starfslaun frá Launasjóði rithöfunda á besta tíma).

Hvers vegna geta þeir ekki skilið að burtséð frá hæfni þeirra og réttlætinu þá þurfa þeir að víkja? Þetta snýst um meira en þeirra persónu. Bankakerfið hrundi. Því er eðlilegt og grundvöllur að endurnýjuðu trausti erlendis á íslensku fjármálalífi - að skipt sé um ríkisstjórn, skipt sé um stjórn fjármálaeftirlits og skipt sé um bankastjórn Seðlabanka.

Ofboðslega eru menn sjálfhverfir að geta ekki drullast til að skilja þetta.

http://www.portfolio.com/news-markets/international-news/portfolio/2009/02/09/Icelands-President-and-First-Lady Það væri síðan eðlilegt að forseti Íslands segði af sér líka. Hann treður virðingu þessa embættis dýpra í svaðið með degi hverjum, sífellt dýpra en maður teldi að hún gæti sokkið.

VG - til gagns eða skaðræðis?

Nýja stjórnin tekur til hendinni og það er gott.

En niðurskurður, mikill niðurskurður ef lífsnauðsynlegur, hefur aldrei nokkurn tíma verið eins brýnn og nú ef við mögulega ætlum að komast úr þessum vanda sem við erum í.

Ef VG slær hendinni á móti hvalveiðitekjum, lætur ganga til baka niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, stóreykur útgjöld til LÍN og heldur til streitu byggingu Tónlistarhússins - þá er þessi flokkur ekkert annað en skaðræðisdýr, það allra versta sem þessi þjóð gat fengið yfir sig í þessari djúpu kreppu.