laugardagur, febrúar 12, 2005

Arthur Miller mun hafa skrifað eina skáldsögu, Focus. Hefur einhver lesið hana?

Bandaríkjamenn nota oftar orðið stories en samsetninguna Short stories. Sumt sem hefur verið gefið út sem skáldsögur hér á landi myndu þeir kalla stories. Og Þjóðverjar kalla, held ég, allt undir 150 síðum Erzählung, sem er algengasta orðið yfir smásögur á þýsku, að ég held. - Ég fann tilvitnun í Alice Munro á netinu áðan en hún hefur gefið út 10 smásagnasöfn og eina skáldsögu, en smásögurnar hennar eru flestar á bilinu 20-60 síður. Hún segist hafa reynt að skrifa skáldsögur en þær hafi alltaf endað sem "hybrid stories". Hún segist aldrei hafa lesið skáldsögu sem henni fyndist ekki hafa getað orðið betri sem "story." Þar með á hún örugglega ekki við að e-r viðurkennd 300 síðna skáldsaga hefði orðið betri sem 10 síðna smásaga skv. hennar smekk; heldur að henni finnist söguformið betra en skáldsagnaformið. Og sögur, stories, geta verið yfir 100 síður. Þetta snýst um að hafa ástríðu fyrir knöppum, hnitmiðuðum texta.

Eitt eftirminnilegasta dæmi sem ég þekki um skáldsögu sem hefði átt að vera smásaga er While I was gone eftir Sue Miller, viðurkenndan bandarískan höfund, en sögur hennar myndu flokkast sem main-stream realismi með blöndu af trylli. Sú saga er yfir 300 síður en hefði varla átt að vera lengri en 50.

Blessuð sé minning Arthurs Millers. Sölumaður deyr er ógleymanlegt leikrit. Ég las líka A View from the Bridge og fannst mjög áhrifamikið. Önnur leikrit hans þekki ég ekki. Miller skrifaði töluvert af smásögum, sumar þeirra mjög góðar, aðrar bitlausari.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Preview til að halda lesendum í kvalafullri spennu. Einkunnarorð síðunnar eru tilvitnunin ".... að ég hafi hlustað á sjálfan mig hverfa út í heiminn og verða óþekkjanlegur." - Um eða eftir helgi skrifa ég pistil um þessa hugsun.

Mér þykir dálítið leiðinlegt hvað ég er í litlu áliti hjá Borgarbókasafninu því það er skemmtilegur staður sem ég held mikið upp á, sérstaklega aðalsafnið við Tryggvagötu, þar sem aðstaða öll er til sóma. Í haust var gerður smásagnaveggur í hillunum frammi þar sem mátti sjá marga tugi smásagnasafna. Ég þurfti hins vegar alltaf að setja bækurnar mínar sjálfur þar í hillurnar. Þær hurfu síðan þaðan í útlán á meðan flestar, en ekki allar aðrar bækur í "veggnum" hreyfðust ekki. Bókmenntagagnrýnandi safnsins gaf mér afleitan dóm á bokmenntir.is og sakaði mig m.a. um byrjendamistök eins og að láta of mikið uppi og segja of mikið í sögunum (án þess að koma með eitt einasta dæmi um það) á sama tíma og tveir mun þekktari gagnrýnendur jusu mig lofi. - Aðalsafnið keypti þrjú eintök af bókinni minni í lok janúar, eftir töluverðan eftirrekstur. Til samanburðar keypti safnið 5 eintök af Nóttinni og alverunni eftir Pjetur Hafstein Lárusson snemma í október, ennfremur 3 eintök af ljóðabók Kristians Guttesen. - Bókin mín er nú í útláni á landsvísu í 21 eintaki (sem er ekkert sérstakt), bók Pjeturs Hafstein í 5 eintökum og Guttesen í tveimur. - Hermann Stefánsson er til í mun meira upplagi en ég á bókasöfnum og var keyptur á aðalsafnið í nóvember. Hann er í útláni í 22 eintökum núna. - Skáldsagnahöfundarnir eru í mun meira útláni, líka þeir minna vinsælu. Norðdahlinn í 28 og Kristín Ómarsdóttir í rúmlega 30 eins og stendur. - Það væri lítið gaman af því að vera rithöfundur á Íslandi fyrir meirihluta höfunda ef ekki væru bókasöfnin. Margir fá mun fleiri lesendur þar en á sölumarkaðnum.

OG PLÍS - ÞARF ÞETTA ENDILEGA AÐ KOMA Í DV? - ÞETTA ER EKKI FRÉTTAEFNI Í GULU PRESSUNNI.

a) Ég á enga óvini sem ég veit um og mér er ekki illa við neinn. Þó að ég hafi strítt einhverjum bloggara og sá hinn sami bloggari hafi verið duglegur að stríða mér á móti þá á það ekkert skylt við fjandskap, frekar á það skylt við húmor, góðan eða slæman.

b) Ég læt persónulegt álit mitt á fólki eða tengsl við það ekki hafa nein áhrifa á skoðanir mínar á bókum. Þetta vita þeir sem þekkja mig vel.

c) Gefið er í skyn að ég opinberi slæmt álit mitt á einhverri bók sem lið í einhverju stríði. Það er bull. Ég á ekki í stríði við neinn og mér líkar raunar vel við fólk sem látið er að því liggja að ég standi í stríði við. En það sem er enn mikilvægara: ef ég stæði í stríði við einhvern þá myndi ég aldrei grípa til svona vopna.

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Er þetta ekki skárra viðmót? Ef einhver treystir sér til að leiðbeina mér um hvernig á að koma inn myndum og hliðarefni, þá sendið mér póst á agust@islenska.is

Ég var að skipta um viðmót á síðunni. Downlodaði líka hello til að geta sett inn myndir, linka á aðra bloggara, o.sfrv. En er ekki búinn að læra á það.

Ég jós hrósi yfir ungan samstarfsmann rétt áðan. Hann hélt ég væri að hæðast að sér og trúði mér ekki.

Það eru fleiri ekki-fréttamenn en Haukur Hauksson. Einn þeirra heitir Jakob Bjarnar.

Mig langaði meira að horfa á Þýskaland - Argentínu í kvöld en England - Holland. Sá hins vegar hvorugan leikinn. Skil svo sem vel að Sýn hafi valið England - Holland enda halda Íslendingar jafnmikið eða meira með Englendingum en íslenska landsliðinu. En svo kom á daginn að hinn leikurinn var víst miklu skemmtilegri. Englendingar og Hollendingar gerðu markalaust jafntelfi en hjá Þjóðverjum og Argentínumönnum endaði 2-2 og sá leikur var víst frábær skemmtun.

Gamli útgefandinn minn, hann Gísli í Ormstungu, er með útsölu í netbókabúðinni sinni. Þar býður hann eldri bækur mínar á 1.267 kr. Í kynningartextanum er hann svo elskulegur að segja frá nýju bókinni minni líka þó að hún sé gefin út annars staðar. Þetta er annars fín síða hjá honum og mikið af afbragðsgóðum bókum sem hann hefur gefið út og núna er hægt að fá á góðu verði. Tékkið á www.ormstunga.is

Jú, fjandinn hafi það, þetta er skáldsaga. Guð veit hvenær hún verður tilbúin. Ég er að fikta við smásögur meðfram og finnst skemmtilegra skipta þannig um texta þegar hentar.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Er ég orðinn svona mikið hrokans viðundur eða er eitthvað að á öðrum bæjum? Um hvað er ég að tala? Jú: Núna er bókmenntaþáttur í sjónvarpinu, ég hef talað mikið fyrir bókmenntaefni í sjónvarpinu, en ég hef bara engan minnsta áhuga á honum. Nenni ekki að horfa á hann. Þegar verið er að tala um bókmenntir á minni línu í þættinum þá finnst mér ég hafa miklu meira vit á þeim sjálfur - en mestan partinn er verið að tala um eitthvað sem hefur ekkert með skáldsögur (að ég tali nú ekki um smásögur) að gera. Núna eru þeir t.d. að fjalla um æviögur rokkara. Það er ágætt en hefur ekkert með þær bókmenntir að gera sem ég hef áhuga á og aldrei er sinnt lengur í sjónvarpinu. Þetta virðist ætla að verða enn einn andbókmenntabókmenntaþátturinn, eitthvert andóf gegn ríkjandi fagurfræðihefð, þó að staðreyndin sé sú að umfjöllun um hefðbundnar fagurbókmenntir sést varla lengur í sjónvarpi. Og í samræmi við tíðarandann má ekki tala við rithöfunda heldur er rætt við poppara og afgreiðslumann í bókabúð og helst um ekki neitt sem skiptir máli. Það var allt í lagi að taka bókmenntirnir af stallinum en það er búið að því fyrir löngu. Í stað þess að því sé haldið áfram má þá ekki biðja um dálitla bókmenntaumfjöllun á ný?

Ég var að ganga frá enn einni dvölinni/ferðinni. Það stefnir í dæmigert ferðaár sem fólk með ungabarn gæti ekki látið eftir sér, auk þess sem ein ferðin er þess eðlis að ófrísk kona gæti ekki farið í hana. Stundum hafa liðið ár og dagar án þess að ég fari út fyrir landsteinana eða borgarmörkin. Núna er þetta að breytast.

Maí 2004: Mánaðarferð fjölskyldunnar um Bandaríkin: San Diego, San Francisco, Las Vegas, Grand Canyon, Phoenix.

Janúar 2005: Mannheim, Þýskaland.

Mars - páskar 2005: Það nýja: Vikudvöl í húsi Rithöfundarsambandsins á Eyrarbakka.

Apríl 2005: Fimm dagar í Prag.

Júlí 2005: Vikuganga um Hornstrandir.

Ég er vanur að loka mig af um páskana á vinnustað og skrifa en núna ætlum við að reyna að vera saman á Eyrarbakka en ég skrifa samt. Þetta er lúxusinn við að eiga stóra krakka sem hægt er að öskra á til að þau hlýði manni, í stað þess að eiga börn sem stjórna manni sjálfum með öskrum. - Auk þess er ólíklegt að Erla og krakkarnir verði allan tímann í húsinu, þau skreppa einhvern hluta af tímanum í bæinn.

Útsala í Máli og menningu. Keypti Bobby og Dingan eftir Ben Rice á 500 kall. Hefur einhver lesið hana?

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Ég skrifaði ekkert í gær, 0 orð.

Ætla einhverjir fleiri en Jónína Ben. að tjá sig um samruna í viðskiptalífinu? Skv. henni eru blokkirnar orðnar aðeins þrjár og þær hver og ein í raun undir sínum banka. M.o.ö. blokkirnar eru bankarnir þrír, Landsbanki, KB-banki og Íslandsbanki. Hvað segir Hafliði, vinur minn, á Fréttablaðinu sem virðist með fróðari viðskiptablaðamönnum og skrifaði mikið um hrun Kolkrabbans? Getur hann skrifað grein um þetta ástand? Hvað með Hallgrím Helga? Eða einhverja fleiri?

mánudagur, febrúar 07, 2005

Já og ég skrifaði 800 orð í gær. Orð? Orð? Uhh, hvaða orðatal er þetta sýknt og heilagt?

Ég rakst á þessa stílæfingu eftir nafnlausan höfund á rithringur.is - Sá er greinilega eitthvað að lesa bloggsíðurnar:

Við erum stödd á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur. Sjálfhælinn vonnabí smásagnahöfundur (skáld 1) kemur auga á krúttlegt ungskáld (skáld 2) sem situr út undir vegg og hefur dregið þunglyndislegan hattkurf niður undir augu.

Skáld 1: Nei blessaður, ertu búinn að vera lengi í bænum?
Skáld 2: Nei. Og ég þarf bráðum að fara aftur vestur.
S1: Skítt maður.
S2: Já þetta er skítt. Og svo eru þessi bévítans krútt að fara með æskuna til helvítis, öll með tölu. Öll þessi déskotans kynslóð dauðans.
S1: Nei láttu ekki svona maður. Þetta er þó varla verra en þegar ég var ungur maður. Þá fékk maður kókið í pínulitlum flöskum, og glas á hvolfi ofaná. Á sunnudögum fengum við það með lakkrísröri.
S2: Og kemur það málinu eitthvað við? Áttu við að þá hafi verið eitthvað þykkara í því ömurlega skolvatni blóðbrunds kynslóðanna sem við köllum daglegt líf? Að þá hafi verið eitthvað skárra að éta líkþorn úr skel?
S1: Nei, kannski ekki. En heyrðu, annars var ég að heyra gott slúður um daginn.
S2: Nú? Og af hverju ætti mér ekki að vera sama? Slúður er ekkert annað en kjaftæðið sem við notum til að fylla upp í eyðurnar í þessari grámygluðu tilveru, eitthvað sem við notum til að gera gegndarlaust tilgangsleysi lífsins bærilegra.
S1: Nei bara. Ég var að heyra utan að mér að einn þekktasti höfundur þjóðarinnar sé mjög hrifinn af nýju bókinni þinni.
S2 (glaðlegri): Nú, er það? Hver þá?
S1 (með dul í raddblænum): Má ekki segja. En hann er mjög frægur. Kitlar þetta?
S2: Eins og gæsafjöður á siginn pung. En annars var ég reyndar að heyra dálítið svipað.
S1: Nú?
S2: Já. Maður sem ég þekki mjög vel er ánægður með bók sem hann las um daginn.
S1: Er það já! Var það nokkuð bókin mín?
S2: Má ekki segja. Á ég að segja þér fyrsta stafinn?
S1 (lítur á armbandsúrið): Nei æi, ég má ekki vera að því. Ég þarf að drífa mig í vinnuna. Ég þarf að finna eitthvað grípandi slagorð fyrir nýju Mattel-dúkkuna sem er að koma á markað.
S2: Já. Ég þarf líka að fara í bankann og borga nokkra reikninga.
TJALDIÐ

Prag-ferð er komin á koppinn og verður líklega pöntuð næstu daga. Langar til að ítreka þakkir mínar til þeirra sem komu með góð ráð og hugmyndir eftir Prag-færslu um daginn. Við förum í byrjun apríl og tilefnið er fertugsafmæli Erlu. Þetta verður nokkuð mikið ferðaár ef að líkum lætur þó að fátt slái út Bandaríkjaferðina í fyrra: í sumar förum við í 7 daga göngu um Hornstrandir. Ég hef alltaf strækað á þessar sumargöngur hennar Erlu og aldrei talið mig mikinn náttúruunnanda. Vaknandi söguáhugi hefur hins vegar vakið í mér áður óþekktan gönguáhuga. Fleira kemur þó til. Mér drepleiddist í bænum þegar Erla fór í gönguna í fyrra, nokkuð sem kom á óvart. Ennfremur: umræður um 3. barnið eru ekki útdauðar og ég finn í mér hvöt til að gera hvað sem er til að sleppa við það, jafnvel að eyða öllu sumarfríinu í tjaldi, altént fara í göngur. Börn eru frábær og ég á tvö slík en mér finnst bara sá tími liðinn að ég vaki yfir ungabarni og skipti um bleyjur. Núna siglum við inn í velmegun miðaldursins með vaxandi ferðalögum, jafnvel sumarbústað ef ég nenni að taka að mér aukaverkefni; nú og með hægt, ofurhægt vaxandi rithöfundarfrægð minni, en umfram allt fleiri bókum sem barnsgrátur má helst ekki trufla.

Annars er ekkert útrætt en Erla fellur á tíma á næstu misserum. Ég má bara ekki verða skúrkur í málinu.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Hugsjónadrusluna, las hana með opnum og jákvæðum huga. Sagan sjálf sem sögð er á 250 blaðsíðum er afar smá og fábreytt: ungur maður frá Ísafirði fær sér að ríða nokkrum sinnum, um borð í Norrænu og í Kaupmannahöfn m.a.. Frásögnin af tilþrifalitlum ástarmálum hans er síðan margklofin af vægast sagt rembingslegum heimsmála- , þjóðmála, heimspeki- og kynjapælingum. Hluti af því er dagbók aðalpersónunnar sem er kostulega rembingsleg, sérstaklega kaflinn þegar hann rifjar upp af miklum hátíðleika hvers vegna hann hætti að segja sannleikann og hætti síðan að ljúga. Ástæðurnar ekki mjög dramatískar. Stíllinn á hugleiðingunum er mjög svipaður hugleiðingum á bloggsíðu höfundar, þær njóta sín ekki illa þar en skáldverk krefst meira en svo kæruleysislegra vinnubragða. Fyrir utan að vera blóðhrár er stíllinn mjög staglkenndur og endurtekningasamur. - Ég veit eiginlega ekki hvort hægt er að kalla þessa bók skáldsögu, í henni er nánast aldrei sýnt heldur alltaf sagt frá og það heldur illa, hún er borin uppi af alhæfingum en ekki örlar á ísmeygileika, íroníu eða margræðni. Höfundur nær aldrei að skapa lifandi andrúmsloft, tilfinningu lesanda fyrir umhverfi, og virðist ekki reyna það, hann veður bara á súðum, uppfullur af sínum bloggvaðli; og persónusköpun er varla fyrir hendi.

Ég er eiginlega hálfmiður mín eftir þessa lestrareynslu og held í þá von að bókin hafi þrátt fyrir allt eitthvað til að bera sem ég hafi ekki komið auga á. Sú trú er rík í manni að allt sem merkt er Máli og menningu sé merkilegt. Frá Máli og menningu hefur meginstraumurinn legið, að reglulegum starfslaunum, bókmenntatilnefningum, viðurkenningu, umtali og sölu. Við frístundarithöfundarnir höfum fylgst af aðdáun á hliðarlínunni með Tröllakirkjum, Alheimsenglum og Höfundum Íslands streyma hjá en það er ansi erfitt að kyngja Norðdahlnum, maður getur eiginlega ekki annað en klórað sér í hausnum yfir upphefð hans.

Svakalega fannst mér ég vera sljór og ómeðvitaður um þjóðfélagsmál þegar ég rakst á klausu í svargrein Hallrgíms Helga í dag við grein Kára Stefánssonar, þess efnis, að síðasta ár hefði verið einhver mesti átakatími í íslenskri samtímasögu. Þetta var áþekk tilfinning og vaknaði við að lesa áramótagrein Hallgríms, þar sem ég var hálfhissa á því hvað honum var svakalega niðri fyrir um fjölmiðlafrumvarpið, svo óendanlega miður sín og reiður yfir því. Auðvitað ágætt að hafa sterkar skoðanir á málunum, en það var eins og hann væri að lýsa valdaráni herstjórnar á Íslandi og hann sjálfur væri landflótta andófsmaður og þó ekki óhultur. Sjálfum fannst mér síðasta ár örugglega ekki vera mesti átakatíminn í íslenskri samtímasögu. En svo getur maður ekki varist þeirri tilhugsun hvað það er erfitt að vera óháður í jafnlitlu samfélagi og því íslenska, jafnvel þó að menn séu allir af vilja gerðir til þess. Menn velja sér ekki vini og geta ekki breytt því að besti vinur þeirra er fyrst ritstjóri Fréttablaðsins og síðan forstjóri Norðurljósa. Eftir samfélgsbreytingar undanfarinna ára er það síðan áleitin spurning hvor er valdameiri í samfélaginu, forstjóri Norðurljósa eða ráðherra í ríkisstjórn. Forstjórinn er a.m.k. valdameiri en óbreyttur þingmaður.

Tölurnar segja að Hermann Stefánsson sé meistari smásögunnar í augnablikinu en ekki ég. Þeirri sögu fylgir þá að aðrir meistarar á borð við Gyrði Elíasson, Þórarinn Eldjárn og Rúnar Helga Vignisson taka ekki þátt í keppninni í augnablikinu. Ég fletti mér reglulega upp á Gegni og þar er Hermann alltaf með einu eintaki meira í útláni. Þetta breytist lítillega frá degi til dags en hann er alltaf þessu eina eintaki fyrir ofan mig. Ég er farinn að óttast að bókin hans hafi líka selst í einu eintaki meira en mín.

Þetta minnir aftur á það að úrslitaleikurinn á HM í handbolta er í dag. Króataía - Spánn.