miðvikudagur, mars 23, 2005

Í tilefni af Fischer-málinu birti ég hér eftir páska tilvitnun úr sögu eftir mig sem tengist Bobby Fischer og stemningunni hér á landi sumarið 1972 þegar Einvígi aldarinnar var háð. Er að fara til Eyrarbakka í kvöld og verð líklega ekkert nettengdur fyrr en eftir páska. Sem er ágætt. Verð með Richard Ford til að lesa, Weather Report í eyrunum og sögu í smíðum á skjánum en ekkert blogg.

Hafið það gott um páskana.

Einn af vinum mínum og velgjörðarmönnum (án þess að hafa hugmynd um það) er bandaríski rithöfundurinn Richard Ford. Hann fékk Pulitzer-verðlaunin árið 1995 fyrir skáldsöguna Independence Day. Smásagnasafnið Rock Springs (frá 1989, að ég held) er stórkostlegt og hefur haft áhrif á marga. Núna er ég að endurlesa safnið Multitude of Sins en sögurnar í því fjalla nær allar um hjónabönd og önnur slík sambönd, framhjáhald og fleiri syndir. - Ford var lesblindur og telur það hafa gert sig að rithöfundi. Hljómar mótsagnakennt en þessi fötlun varð til þess að hann varð gríðarlega nákvæmur í orðavali og hefur sá ávani fylgt honum.

Ford er einn af þessum höfundum sem hafa fylgt mér og hjálpað mér að búa til sögur, aðrir eru t.d. Raymond Carver, Tobias Wolf og Alice Munro. - En á þessum tímapunkti dusta ég nýlegt ryk af bókum Fords því líklega þarf ég á honum að halda í skrifum á næstunni.

Bjartur þarf að láta þýða Ford og gefa út í NEON. Multitude of Sins væri heppileg, enda nýleg bók.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Já og til hamingju með forlagið, EÖN og aðrar ungspírur. Traktor. Skemmtilegt nafn.

Við förum til Eyrarbakka annað kvöld og verðum yfir páskana. Reyndar verða Erla og krakkarnir bara hluta af tímanum enda plássið ekki mikið. Meistarinn telur sig vera að komast á skrið eftir ansi köflótta tíð undanfarið. Svo er vor í lofti og dásamleg tíð framundan.

Ég er kannski að hætta mér út á hálan ís núna, en ég er ekki vanur að láta slíkt aftra mér: Mér finnst það frekar skemmtileg tilhugsun að FF-feðgarnir Sveinn og Eyjólfur séu að fikra sig út í viðskipti aftur. Eflaust hafa þeir verið að bauka eitthvað, ég meina, svona menn hanga ekki iðjulausir, en þeir verða smám saman sýnilegri á ný næstu árin. Eflaust er einhverjum heitt í hamsi við þá ennþá enda bakar enginn sér vinsældir með stórgjaldþroti. Ég minnist þeirra með nokkrum hlýhug, já töluverðum hlýhug. Ég vann fyrir þá í nokkur ár, fékk ýmis tækifæri og skemmtileg verkefni, t.d. menningarvef á Vísi sem ljáði mér rödd í bókmenntalífinu. Nú og hitt djobbið er margumtalað og kom sér vel á sínum tíma. Og þó að allt hafi ekki gengið hnökralaust undir það síðasta, ehemm, þá endaði það nú vel hvað mig snertir. Og vonandi eru flestir hlutaðeigandi búnir að ná sér á strik aftur. Já, ég á heilt yfir mjög góðar minningar um veruna í Þverholti og Brautarholti, að mörgu leyti ógleymanlegur tími. Enginn skyldi heldur gleyma því að Eyjólfur Sveinsson stofnaði bæði Vísi.is og Fréttablaðið þó að vitaskuld eigi aðrir menn líka þátt í því brauðryðjendastarfi. Og Sveinn stofnaði Dagblaðið, síðar DV, ásamt fleirum. Brautryðjendur taka áhættu og geta gert dýr mistök- En ég segi bara: Gangi þeim feðgum vel.

Á laugardaginn skruppum við Kjartan út í búð, keyptum örfáa hluti úti í 10-11 á Hjarðarhaganum, þar á meðal ís handa honum. Erla var ekki heima og hafði tekið með sér veskið. Mitt veski var tómt en að vísu eitthvað inni á debetkortinu. En engu að síður vaknaði sú hugmynd að Kjartan myndi borga matinn að þessu sinni. Hann á (eða átti) 5 þúsund króna seðil í veskinu sína, peninga sem ég hef verið að gefa honum smám saman og síðan skipt í bláan seðil þegar upphæðin hafði náð því, eitthvað af evrum sem ég gaf honum eftir Mannheimaferðina og nokkra dollara (sem hann kallar "dolvara"). Auk þess að leggja út fyrir því sem við keyptum fékk Kjartan það verkefni að borga við kassann, rétta seðilinn og fá til baka á meðan ég setti í pokana. Þetta gerði hann fumlaust, hnarreistur og stoltur. Ég varð hins vegar hugsi: Drengurinn elskar peninga og hvers kyns talningu. Hann er glettilega góður í reikningi, a.m.k samlagningu og frádrætti og hef ég enga hugmynd um hvar hann hefur fengið þá kunnáttu. Ekki er líklegt að hann eyði tíma sínum í smásagnahnoð í framtíðinni. Hann gæti alveg orðið peningamaður. Segjum að hann væri orðinn ríkur um þrítugt (hann er 5 ára núna). Hvað verð ég gamall þá? KJARTAN, HVAÐ VERÐ ÉG GAMALL ÞEGAR ÞÚ VERÐUR ÞRÍTUGUR? 67 ára. 67 ára rithöfundur, löngu búið að sparka honum af auglýsingastofunni, hugsanlega búinn að fá nokkrum sinnum 6 mánaða starfslaun en dottinn af þeim líka. En með ríkan son. Sem er búinn að fá smjörþefinn af því að borga ofan í föður sinn. Hljómar ekki illa ...

Hafið þið tekið eftir því hvað það er algengt að háskólamenntað fólk í húmanískum fögum sé smámælt? Tali með smámæltu essi. Þetta litla, sæta málhelti er nánast gáfumerki. Ég man samt ekki hvort bókmenntafræðipíkurnar (og ég er þá líka að tala um þessar sem eru með skegg) segja "grótesk" með smámæltu essi. Það hljómar a.m.k. mjög glæsilega. Reyndar sagði kollegi mér í dag að það væri misskilningur hjá mér að þetta væri vinsælasta orðið hjá þeim. Hann vildi meina að það væri orðið "orðræða". Líklega er það rétt.

Nýja tilvitnunin er úr sögunni Hringstiginn sem birtist í samnefndu safni haustið 1999, en hálfu ári þar áður í TMM. Svona tæran og myndrænan stíl þola ólátabelgirnir ekki.

mánudagur, mars 21, 2005

Ég man það eins og í gær þegar ég skipti um bleyjur daglega. Líklega orðin um fjögur ár síðan síðast. Ég man límplastið á fingrunum og hvernig maður smellti bleyjunni saman, man brakhljóðið í henni. Og litli kjáninn hjalaði framan í mann. Undarlegt eins og ég er mikill klaufi í höndunum að þetta lék mér alltaf í þeim. Ég gat hreinsað burt fullkomlega útklínda drullu og komið barni tandurhreinu í nýja bleyju á augabragði.

Ég hef fyrir hálfgerða tilviljun tekið upp á því að vera með músík í eyrunum undanfarið. Einhvern tíma í dag þegar ég tók vasaspilarann upp úr úlpuvasanum rann upp fyrir mér að líklega væri ég með algörlega úrelt tæki í höndunum. Ég hef m.a.s. eitthvað tekið þátt í því að auglýsa arftakana undanfarið, að vísu aðallega í gegnum prófarkalestur, en þó með einhverjum textaskrifum (samt ekki eins fyndið og þegar ég er að skrifa um bílana) . Ég minnist þess líka að ég fékk mér fyrsta geislaspilarann löngu eftir að þeir voru orðnir allsráðandi, ég var hættur að geta keypt vinylplplötur í búðum, þær voru ekki lengur á boðstólum. Síðasta vinylplatan sem ég keypti var Monster með R.E.M. árið 1994. Þetta hefur ekkert með íhaldssemi að gera (þó að ég sé íhaldssamur) heldur er þetta einhvers konar meinlaus leti. Ég gaf stelpunni minni í afmælisgöf GSM-síma sem ég kann ekki á sjálfur og gæti varla notað. Reyndar er helsta verkefni þeirra sem selja rafknúin afþreyingartæki sú að fá fólk eins og mig til að læra á þau, því virðisauki framtíðarinnar liggur fremur í meiri notkun á tækjunum (t.d. GSM-símum) en aukinni sölu á þeim. Líklega eru börn og unglingar bestu kennararnir. Símafyrirtækin ættu að ráða börn í vinnu til að kenna miðaldra fólki á tækin.