laugardagur, mars 18, 2006

Við erum búin að panta flugið til Friedrichshaven og ætlum að ganga frá hótelpöntun um helgina. Við verðum því í München dagana 20. - 26. maí. - Hvers vegna í ósköpunum er ég að segja frá þessu? Hverjum kemur þetta við? Er það af því ég er einhvers konar míkrófrægðarmenni, með 200 eða 2000 eða 20 aðdáendur (ég hef satt að segja ekki hugmynd um hvað þeir eru margir) sem vilja vita af því að ég fari til München á meðan afgangurinn af heiminum myndi vilja vita um ferðir Britney Spears þangað?

föstudagur, mars 17, 2006

Um helgina eru alls konar útréttingar framundan auk fertugsafmælis í fjölskyldunni. Á sunnudag kemst ég þó burtu til skrifta, sem og í kvöld. Þó að ég eigi töluverða stafla af blaðsíðum hef ég í rauninni ekki skrifað neitt konkret af viti í næstum tvö ár. Núna hef ég hins vegar sett mér deadline á sirka 20 síðna sögu fyrir 7. apríl næstkomandi. Það segir hins vegar ekkert um samsetningu næstu bókar, ég gef hana upp síðar en er nú þegar farinn að stíla á útgáfu haustið 2007, en ekki næsta haust. Þetta er þó ekki endanlega ákveðið.

Ég er að hugsa um að sjá leik Þjóðverja og Bandaríkjamanna á þýskri sjónvarpsstöð á miðvikudagskvöldið í næstu viku, heima hjá Jóni Óskari.

"Ferðu aldrei í taugarnar á sjálfum þér", segir vinnufélagi. Ennfremur segir hann um mig: "Það þýðir ekkert að bauna á hann, það hefur engin áhrif á hann, sama hvað er sagt við hann."

Síðasti vasapeningurinn frá Blaðinu kominn í hús. Kjúklingasalöt, Café latte, bækur, geisladiskar, kannski klámmynd, þó varla - en þessu verður að eyða strax. Dót handa stráknum, hann fékk gubbupest í gær. Gubbaði á miðri bekkjarskemmtun en stóð sig ansi hetjulega, sóðaði nánast ekkert út og var alltaf kominn með hausinn ofan í fötu eða salerni þegar hann þurfti að losa sig við meira.

Ég hef ekki lesið neinn skáldskap af miklum áhuga í töluvert langan tíma. Slíkar stundir fara yfirleitt núna í FIFA 06. Þetta gengur ekki. Ég þarf að finna nýja höfunda.

fimmtudagur, mars 16, 2006

http://www.graenahusid.is/index.htm Rúnar Helgi tekur undir með meistaranum, vini sínum, og dustar rykið af nokkurra ára gamalli blaðagrein eftir sjálfan sig um sama efni.

Mér er sagt að öll stórfyrirtæki hafi eitthvert óhreint mjöl í pokahorninu. Baugsmenn hljóta skv. því að vera óvenjulega heiðarlegir bissnissmenn. Ákærurnar voru í fyrsta lagi ómerkilegar og í ofanálag reynast þeir vera saklausir af þeim öllum. Ég veit að þeir fengu tækifæri til að taka til hjá sér en engu að síður er þetta mál óskiljanlegt. Fokdýr, smásmuguleg og ógnarlöng rannsókn af litlu tilefni.

Egill Helga rak út nefið á Andarunganum í Lækjargötu í fyrradag og skammaði mig fyrir að vera hættur að blogga um annað en sjálfan mig. "Þú mátt ekki vera svona sjálfhverfur", sagði hann. "Já, en ég er sjálfhverfur", svaraði ég. - Ég held reyndar að þetta hafi ekkert breyst. Þetta hafa alltaf verið sirka 70% færslur um sjálfan mig og síðan 30% um þjóðfélagsmál. Agli gengur auðvitað gott til, hann kann að meta það sem ég skrifa um pólitík og og skyld málefni og vill fá meira af því. Hins vegar væri fróðlegt að vita hvers vegna hann tekur allt í einu eftir sjálfhverfninni á síðunni núna. Hljómaði dálítið eins og afrakstur af e-u spjalli (kannski þekkir hann ÞÞ, sem ég reyndar sá á kaffihúsi um daginn og hefði ekkert haft á móti að heilsa, en þar sem mig grunar að hann sé týpa sem hefði ekki tekið undir, sleppti ég því). Hætt er við því að hann sjái ekkert nema sjálfhverfnina hér eftir. Þegar menn hafa bitið eitthvað í sig verður oft ekki aftur snúið.

Ég sá nokkurn hluta af Róskumyndinni endursýndri í gærkvöld, vildi að ég hefði séð hana alla, hún virkaði mjög fróðleg.

Ég er búinn að hafa stanslausar áhyggjur af landsliði Þjóðverja vegna HM í sumar. Þetta lítur allt annað en glæsilega út og sorglegt væri að sjá liðið falla snemma út úr keppni á heimavelli. Það hefur reyndar oft verið þannig að ef Þjóðverjarnir hafa verið með lélegt lið og spilað illa, hafa þeir hnoðað sig alla leið í úrslitaleikinn og tapað honum; en með gott lið hafa þeir hampað titlinum. Hætt er við að hvorugt verði uppi á teningnum núna. Ég er reyndar búinn að reikna þá alla leið í 8-liða úrslit án þess að spila góðan leik (riðillinn þeirra er léttur og þeir gætu hæglega fengið Svía í 16-liða úrslitum, en sænska liðið virðist vera að hrynja). Ég veit hins vegar ekki hvernig þeir eiga að redda sér lengra í keppninni. Brasilíumenn virðast leiðinlega fyrirsjáanlegir heimsmeistarar en vonandi sannar knattspyrnan enn á ný ófyrirsjáanleika sinn.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Þegar ég var ungur fylgdist ég með menningarumfjöllun fjölmiðla af töluverðri lotningu og lærði oft mikið af henni. Ég öðlaðist t.d. töluverðan skilning á ýmsum bókmenntastefnum, t.d. módernisma og realisma, með því að lesa TMM. Ég lagði oft við hlustir af áhuga þegar konseptlistamenn ræddu verk sín og leikhúslífið var troðið framsæknum menningarvitum sem vildu ögra og fara nýjar leiðir.

En núna?

Árum saman hefur feullition fjölmiðla verið eitthvað sem höfðar ekki til mín, ekki frekar en golfþættir eða Formúlan. Innslag í Kastljósi gærkvöld var svona dæmigert: ég heyri glaðlega og vinsæla sjónvarpsrödd ræða við leikendur í Litlu hryllingsbúðinni sem nú er víst verið að uppfæra í 857. skipti hér á landi, núna á Akureyri. Í sjálfu sér ekkert við þetta efni að athuga en mér flaug allt í einu í hug að þetta væri dæmigert innslag úr menningarlífinu og ég hefði ekki áhuga á slíku efni lengur, því það snýst yfirleitt um einhverjar mjög svo samkvæmishæfar klisjur, t.d. vel gefið en fullkomlega ófrumlegt fólk að tala um einhverjar gjörsamlega útjaskaðar leiksýningar handa ólæsu fólki eða því sem næst.

mánudagur, mars 13, 2006

Þegar Freyja var lítil laug ég því að henni að Frank Zappa væri afi hennar. Hún var býsna ánægð með þennan afa sem var svo flínkur að spila og syngja og var með allskonar sprell. Hún trúði þessu til a.m.k. fimm ára aldurs. Í kvöld horfðum við saman á myndband með karlinum af tónleikum frá miðjum níunda áratugnum og Freyja rifjaði upp þessar minningar, t.d. hvernig hún hafði þráttað um þetta við eina vinkonu sína: víst væri þessi maður afi hennar!

Við horfðum líka á Pete Townshend djöflast á gítarnum sínum í verkinu Sparks af Tommy á aðeins tveggja ára gömlum tónleikum. Í gítarhamnum verður til einhver undarleg blanda af unglingi og gamalmenni á sviðinu. Freyju fannst hann vera krúttlegur.

Annars nennir Freyja sjaldan að hlusta á "mína" músík, er á kafi í sínum blakkædpísum og Britney Spears og Jennifer Lopez. Það er fínt.

Ég er að lesa ansi gott smásagnasafn eftir Kristján Karlsson, sem þekktastur er fyrir ljóðagerð. Bókin ber svo langt nafn að ég nenni ekki að skrifa það hér. Hins vegar rakst ég þar á orðið lagakistu, yfir það sem annars er nefnt glymskratti (sem er dálítið merkingarlaust og lítt gegnsætt, maður sér bara fyrir sér geðvondan gamlan karl) og djúkbox. Lagakista. Hafið þið heyrt þetta orð áður? Er það kannski algengt og þetta bara einhver fáviska í mér? Mér þykir þetta altént ansi virkilega gott orð.

sunnudagur, mars 12, 2006

Þrjár framkvæmdir

Hringbrautin - sem er óskiljanlegt rugl, breytingar sem valda því t.d. að mjög erfitt er að komast fótgangandi frá BSÍ vestur í bæ og ekki er hægt að fara á reiðhjóli frá Hringbraut og upp á Rauðarárstíg.

Breytingarnar á Hlemmi - sem eru ljótar og fáránlegar, auk þess sem þær loka svæðið af og hafa drepið það litla mannlíf sem enn þreifst þarna á síðari árum.

Strætókerfið - sem er óskiljanlegt. Vagninn sem stoppar rétthjá heimili mínu fer ekki niður í miðbæ, ef ég ætla að taka vagn uppi á Hlemmi ekur vagninn minn oftast framhjá mér og tekur mig ekki upp í vegna þess að ég stóð ekki við nákvæmlega rétta staurinn, þó er ógjörningur að vita hvar maður á nákvæmlega að standa til að bíða eftir hverjum vagni.

Stundum er sagt að bestu stjórnvöldin séu þau sem geri minnst. Þessar þrjár aðgerðir kostuðu allar mikla peninga og mikla vinnu. Borgin væri miklu betri ef nákvæmlega engu hefði verið breytt í þessum málum, ekkert aðhafst.