föstudagur, mars 24, 2006

Við erum búin að panta ferðina til München en eigum eftir að ganga frá hótelpöntuninni. Við ætlum að gera það í tölvunni í morgun. Eins og áður hefur komið fram var ég síðast staddur í München fyrir réttum 20 árum. Ef einhver hefði sagt mér þá að eftir 20 ár myndi ég panta hótelgistingu í þessari borg í gegnum tölvu í íbúð á Tómasarhaganum, með þessari konu sem ég var þá nýbúinn að kynnast, þá hefði mér svo sem ekki fundist það neitt ótrúlegt. Og mér hefði líkað sú framtíðarsýn ágætlega. Mér hefði líka líkað ágætlega að ég yrði þá búinn að gefa út 5 smásagnasöfn og ynni á auglýsingastofu. Mér hefði hins vegar þótt skelfilegt að heyra að ég yrði þá 107 kíló, það hefði hljómað miklu skelfilegar en það er í raunveruleikanum.

Helvítis tími

Ég var að lesa yfir stjörnuspárgrein fyrir mömmu í morgun (þeir eru ekki búnir að reka hana af Blaðinu, þeir reka mig en borga henni) og þá kom fyrir eitthvert orðalag um litlar stelpur í prinsessukjólum. Skyndilega langaði mig í barn, í fyrsta skipti frá því Erla byrjaði að væla um þetta fyrir heilu ári síðan, langaði mig sjálfan í barn. Svo áttaði ég mig á því að þetta var ekki alveg rétt - mig langaði ekki í ungabarn og mig langaði ekki til að vaka á nóttunni og mæta ósofinn í vinnuna til að semja fyrirsagnir og prófarkalesa bæklinga sem kostar hálfa milljón að prenta og ekki má finna eina einustu villu í - mig langaði ekki til að þrífa kúk og komast aldrei neitt burtu. Það sem mig langaði í var 3 til 5 ára stelpa, vegna þess að stelpur á þessum aldri vilja alltaf vera í fínum kjólum, líka hversdags og það er ægilega sætt. Freyja var þannig. - Þá fattaði ég að það sem mig langaði var að geta snúið tímanum aftur þegar mig lystir (og komið svo til baka til núsins þess á milli) og stundum er alveg óskaplega sorglegt að hann skuli bara líða í eina átt.

Er það ekki óttalegt hugleysi í ríkisstjórninni að blása af borðinu hugmyndir um að fólk geti keypt sig fram í biðröðum í heilbrigðiskerfinu? Ertu hrædd við vælið í Vinstri-grænum, Sif? Þú getur betur en þetta. Lífið er stutt og um að gera að skilja eitthvað eftir sig, eitthvað af viti, ekki vera bara hengdur upp á þráð næstu kosninga.

Sagt er að það sé dýrt að vera fátækur. Ég held að það sé umfram allt leiðinlegt og sannast það á Blaðinu, blessuðu, sem varð að segja upp launuðum pistlahöfundum. Þar eru nú engir meistarar blæbrigða hversdagsleikans en eftir stendur pólitískur áróður. Í dag skrifar Svandís hin Vinstri græna um ókeypis skólamáltíðir í Danmörku. Booooooring. Vonandi eru þær máltíðir næringarríkari en ókeypis viðhorfsgreinar á Íslandi. Annars er alltaf gaman að lesa Andrés og Kolbrúnu, en þau geta ekki skrifað allt blaðið.

Ég verð að viðurkenna að það er nokkur pistlafiðringur í mér. Gæti samt alveg hugsað mér að bíða í nokkra mánuði. Hver veit nema ég verði í útvarpinu aftur í sumar. Annars skil ég ekki hvers vegna Fréttablaðið grípur ekki gæsina. Mér finnast Bakþankarnir þar oftar en ekki óttalega leiðinlegt gjamm.

fimmtudagur, mars 23, 2006

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060323/FRETTIR02/60323065/1091

Alveg er þetta absúrd mál. Loðni, margræði og lygilegi raunveruleiki - skáldskapurinn á ekki sjens í þig.

miðvikudagur, mars 22, 2006

http://www.kistan.is/efni.asp?n=4584&f=1&u=14 Jákvæður og athyglisverður pistill um Gilzenegger.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Ég varpa fram þeirri tilgátu - án djúprar þekkingar - hvort varanlegur efnahagsvandi ríkja á borð við Þýskaland og Frakkland, sé e.t.v. sá að þau séu í rauninni sósíalísk, sem lýsi sér í reglugerðarfargani, ríkissforsjá sem er í höndum ESB og gríðarlegu valdi verkalýðsfélaga. Má þá líka segja að Ísland hafi verið sósíalískt ríki fram til tíunda áratugarins og Bretland hafi verið það fyrir Thatcher?

Gestapenni

Vináttulandsleikur Þjóðverja og Bandaríkjamanna á miðvikudagskvöld verður eflaust ekki minnisstæður þó að ég hlakki mikið til að horfa á hann heima hjá vini mínum, Jóni Óskari. Hins vegar gæti þessi heimsókn orðið minnisstæð þar sem Bergdís, kona hans, nálgast það nú mjög að fæða þeirra fjórða barn. Ég sagði í tölvupósti til Jóns Óskars að mér þætti það ekki ónýtt að horfa á fótboltaleik og taka á móti barna sama kvöldið. Hann svaraði mér á þessa leið:

"Sjálfum fannst mér meira heillandi að vera staddur við Indlandshaf, langt inni á átakasvæði undir stjórn hinna herskáu Tamíla Tígra, þegar Bergdís hringdi í mig og sagði mér að Sturla væri fæddur þremur vikum fyrir tíma. Ég settist inn á lítinn veitingastað við sjávarmálið og bað einn Tamílann að færa mér bjór og sígar og horfði svo út á flóann. Fjórum mánuðum síðar þegar ég kom heim og sá drenginn orðinn stórann og flottan kom svo Tsunamí flóðbylgjan yfir þennan veitingastað og lagði hann og þorpið í rúst.

Þegar Salvör átti að fæðast, var ég fastur inni í stórskotahríð í Sarajevó. Við sluppum svo út með franskri herflugvél stutt hopp yfir á herflugvöll í Split í Króatíu. Alþjóðaflugvöllurinn í Zagreb var lokaður þannig að ég leigði mér bílaleigubíl og keyrði yfir Slóveníu til Graz í Austurríki. Þaðan náði ég flugi heim í gegnum Köben og Salvör fæddist daginn eftir. Tveimur dögum síðar fór ég til Kína með Utanríkisráðherra meðan Bergdís var enn á fæðingardeildinni. Í þeirri ferð fór ég meðal annars og skoðaði vopnahléslínuna milli Suður- og Norður-Kóreu, sem var mjög eftirminnilegt. "

Jón Óskar hefur alltaf verið maður stórtíðindanna og ég maður litlu blæbrigðanna í hversdagsleikanum.

sunnudagur, mars 19, 2006

Keypti smásagnasafnið Ten Little Indians eftir Sherman Alexie á 345 kr. í Máli og menningu. Alexie, sem er indjáni, er þrælskemmtilegur höfundur sem ávallt heldur athygli manns frá fyrstu setningu.

Áratugum saman hafa heyrst réttmætar gagnrýnisraddir um óþolandi stöðlun kvenlegrar fegurðar. Nú eru uppi menn sem berjast fyrir staðlaðri karlmannsfegurð. Ötulasti baráttumaðurinn á þessu sviði, Gilzenegger, svaraði nýlega neikvæðri gagnrýni á bók sína í Lesbók Morgunblaðsins með því að gera lítið úr útliti ritdómarans. Það sýnir best hvað þessi stöðlunarlína er þröngsýn þegar bráðmyndarlegur maður á borð við Hávar Sigurjónsson er dreginn í efa sem gagnrýnandi vegna útlits síns. Hinn fagri karlmaður telst því væntanlega samkvæmt þessu í öllum tilfellum vera innan við fertugt, með vöðvastælan líkama alsettan fegurðarkremum og olíum og strípur í hári. Eitthvað svoleiðis. Ég held að konur séu almennt hins vegar ekki svo heimskar að þær gleypi við þessum boðskap þó að karlmenn í stórum hópum hafi í gegnum tíðina hallað sér að staðalímyndinni um kvenlega fegurð, a.m.k. í dagdraumum sínum.
Vel gefin kona sagði t.d. við mig um daginn að þó að Eyvindur Karlsson (sem nýlega lenti í ritdeilu við kallagengið) væri eflaust ekki draumaprinsinn hennar myndi hún a.m.k. miklu frekar vilja sofa með honum en títtnefndum Gilzenegger.

Fyrir utan þann stóran hluta karlmanna sem mun ávallt kæra sig kollóttan um hvort hann telst ljótur eða fallegur.

Alls kyns hlutir geta endurvakið gömul tímabil í huganum, gert þau ljóslifandi, og því lengra aftur sem minningin nær, því meira heillandi. Í dag fékk ég hins vegar nostalgíukast sem nær aðeins fjögur ár aftur í tímann. Árið 2001 gaf Divine Comedy aka Neil Hannon út plötu sem mig minnir að heiti Renegation (það gæti þó verið misminni). Hannon hefur aldrei orðið ýkja vinsæll, enda er hann afburðagóður, og þessi plata er líklega bæði hans besta og sú óvinsælasta. Vorið og sumarið 2001 var ég að ljúka við bókina Sumarið 1970 og hlustaði þá linnulítið á þessa plötu á meðan ég skrifaði sögurnar Tómur bíósalur, Við mamma erum ekki líkar, Dyragættin og En hvar er Fischer núna? Síðan þá hef ég aldrei hlustað á plötuna og ekki rekið í hana augun fyrr en núna um helgina að Erla var að gramsa í diskasafninu, aldrei þessu vant, og var að spila eitthvað, en hún hefur alltaf haldið mikið upp á lag nr. 9 á þessum diski, Mastermind. Allt um það, 2001 er líka árið þegar við fluttum okkur frá Fálkagötu niður á Tómasarhaga og það minnisstæðasta úr þeim flutningum hefur mér alltaf verið allar ljósakrónurnar sem ég varð að festa upp, skelfilega langdregið og erfitt verkefni fyrir verulega óhandlaginn mann.

Á einu augnabliki í morgun var ég hrifinn inn í árið 2001: Ég heyrði aftur tónana af þessari Divine Comedy plötu, ég rak í kjölinn á Sumarið 1970 og ég átti að fara að festa upp ljós, í fyrsta skipti síðan þá, loftljósið í anddyrinu hafði gefið sig og við vorum búin að kaupa nýtt í Húsasmiðjunni. Nú brá svo við að mér gekk bara afbragðsvel að ná niður gamla ljósinu og festa upp það nýja, vírarnir tengdust á augabragði og vel gekk að troða öllu leiðsludraslinu inn í dósina, en leiðslan var ákaflega löng og greinilega framleidd með meiri lofthæð í huga. Erla þurfti reyndar, eins og áður, að verkstýra mér, ég vissi ekki einu sinni hvernig ætti að ná nýja ljósinu upp úr umbúðunum, né hvernig það átti að snúa yfirhöfuð, en engu að síður voru það mínar klaufsku hendur sem önnuðust verkið. Á venjulegum heimilum er eflaust algengara að eiginmaðurinn sjái alfarið um svona verk á meðan eiginkonan rápar um Smáralindina og hugsanlega er maðurinn rokinn að heiman til að þeysa um á snjósleða á Vatnajökli þegar konan kemur til baka, en ljósin á sínum stað og virkandi; Erla er hins vegar ekki svo góðu vön og augljóst var að hún lét það prýðilega gott heita að ég drullaðist möglunarlaust til að taka svo virkan þátt í verkinu. - "Ertu voða montinn núna, herra rafvirkjameistari", sagði hún, en ánægjan var augljós. Við vönguðum síðan saman við þetta lag okkar, Mastermind, með Divine Comedy og áttum okkar rómantískustu stund í langan tíma - fyrir það eitt að okkur hafði tekist að skipta um loftljós á aðeins 15 mínútum.