föstudagur, september 03, 2004

Mig dreymdi ýmislegt í morgun sem ég gat ekki fest hendur á og skilgreint þegar ég vaknaði. Þegar ég reyndi að grufla eftir draumunum kom mér bara í hug gömul en afar skýr æskuminning: þegar ég sá konur bera fram veitingar á bökkum í Félagsheimilinu á Seltjarnarnesi laust fyrir 1970. Þær báru fram pönnukökur og lögðu glös yfir opnar kókflöskurnar. Mikið þótti mér það heillandi, þ.e. að sjá glösin lögð yfir flöskurnar. Ég dáðist líka að því að þær gætu borið þetta allt án þess að missa neitt niður. Ég man ekki hvert tilefni þessarar samkomu var.

miðvikudagur, september 01, 2004

Ég hef fundið nýja leið til að komast yfir nýtt efni eftir uppáhaldshöfundana mína. Maður slær "New York - Fiction" inn á leitarvél og upp koma splunkunýjar smásögur. Í gær prentaði ég út krassandi ástarsögu eftir Alice Munro, Chance, og í dag fann ég nýja sögu eftir Richard Ford, The Shore. Ford er ekki eins og góður og Munro og Raymond Carver, en samt frábær þegar honum tekst best upp.

Eiríkur Bergmann segir réttilega í grein í Fréttablaðinu að Sjálfstæðismenn eigi enga samleið með Repúblíkönum í Bandaríkjunum. Hvað eiga t.d. bókstafstrúarmenn og íslenskir hægrimenn sameiginlegt? Ekkert. Demókratar liggja Sjálfstæðisflokknum miklu nær.

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Mér var bent á stuttan ritdóm um Uppspuna eftir líklega Pál Baldvin Baldvinsson, í síðasta Helgar-DV. Hann bendir réttilega á að smásagan þarf að öðlast líf á ný í blöðum og tímaritum. Lesbókin þyrfti að vera duglegri í þessu og bæði Fréttablaðið og DV ættu að geta birt smásögur um helgar og þá auðvitað að passa sig að velja gott efni. Og reynið ekki að segja mér að fólk myndi ekki lesa þetta, það er nú ýmislegt sem ratar í blöðin og telst ekki líklegt til vinsælda.

mánudagur, ágúst 30, 2004

Ég gerði hádegishléið endasleppt í Iðu. Það er undarlegur og tómlegur staður. Bókaúrvalið auðvitað í samræmi við nútímann og framtíðina: í anda flugstöðvanna. Aðeins það vinsælasta á boðstólum. Hræddur er ég um að Wannabe, Sveittur og meintir meistarar vissra bókmenntaforma eigi lítið skjól í þessari víðáttumiklu verslun sem virðist ekki vita hvað hún á að vera. Ég ákvað engu að síður að fá mér hádegisverð þarna, umfram allt út af staðsetningunni og útsýninu. Þarna sat maður í Nýja bíó á 8. áratugnum, bíóhúsi sem hafði allt of mörg sæti og svo íburðarmikil að þau virtust tímaskekkja þá. Ég horfði yfir að Stjórnarráðinu og ímyndaði mér Sænska frystihúsið við hliðina. En þarna á efstu hæðinni er afskaplega stílhrein, óaðfinnanleg og sálarlaus kaffistofa. Í hinum endanum eru einhvers konar sælkeraskyndibitar og þar er borðunum raðað í eina röð eins og í einkasamkvæmi. Ekki sat hræða þarna og nánast enginn heldur á kaffistofunni, fyrir utan tvær konur á mínum aldri sem settust út í horn og kærðu sig kollóttar um útsýnið.
Mitt á milli veitingastofanna tveggja er mikið af einhverju leirdóti og blómavösum til sölu í anda Blómavals og Ríkeyjar. Þar var heldur enginn að versla að þessu sinni.
Þegar ég hafði klárað matinn af minni alþekktu græðgi átti ég eftir 40 mínútur af hléinu og hugsaði mér gott til glóðarinnar með smásögur Williams Trevor í töskunni. En um leið og ég opnaði bókina kvað við skerandi hávaði: diskur með Margréti Eir hafði verið settur í græjurnar og skrúfað nálægt botni, og söngkonan tók að æpa erlenda slagara með íslenskum texta svo glumdi í veggjunum og ómaði um alla Lækjargötuna. Ég forðaði mér.

Hinu er ekki að neita að efsta hæðin í þessu húsi er kjörin fyrir upplestra í haust, gott pláss, nóg af stólum og staðsetningin frábær.

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Fréttablaðið er búið að ráða Súsönnu Svavarsdóttur sem menningarritstjóra blaðsins. Þetta eru góðar fréttir. Það kemur sér vel að Fréttablaðið ætli að stórauka menningarumfjöllun og gera hana pró eins og Mogginn. Spurning hvort þá syrti ekki enn í álinn hjá Mogganum. Hins vegar er það sorgleg sóun að Silja Aðalsteinsdóttir skuli ganga laus á meðan blöðin eru að auka menningarumfjöllun sína. Hún er einfaldlega best. Ég þekki reyndar fleiri dæmi um það að Mogginn leiði hjá sér besta fólkið (ég er ekki að tala um sjálfan mig!) og í þessu tilviki gerir Fréttablaðið það líka.

Hvað er ég búinn að segja oft hér á þessari síðu að núna sé ég loksins búinn með bókina? Jæja, áðan skilaði ég próförkinni niður í Skruddu og sat þar góða stund við að færa inn leiðréttingar. Þar með ættu afskipti mín af þessu handriti loksins að vera úr sögunni.
Við þetta sýsl rifjaðist dálítið upp fyrir mér. Í einni sögunni er minnst á bíóferð í Tónabíó á 8. áratugnum. Rétt eftir að ég skrifaði þann kafla í fyrrahaust fann Erla eldgamlan bíómiða úti á götu og færði mér; það var aðgöngumiði að 7-sýningu í Tónabíói.