laugardagur, október 02, 2004

Ég sat eins og klessa fyrir framan sjónvarpið áðan, þreyttur eftir skokkið. Gísli Marteinn byrjaði. Ég hugsaði með mér að ég væri ekki svo kröfuharður núna að ég gæti alveg horft á þetta. Velti því fyrir mér hver væri aðalgesturinn. Og hver er hann? Bubbi Morthens! Já, Bubbi Morthens! Með fullri virðingu fyrir þeim ágæta listamanni, má ég biðja um örlítið meiri frumleika? Eða ekki. Ég geng bara burtu frá sjónvarpinu og heyri í fjarska Bubba tala um erfiða æsku og vímuefnanotkun. Er það í þúsundasta skipti eða milljónasta skipti sem ég heyri þetta? Veit ég ekki allt um Bubba Morthens? Veit ekki öll þjóðin allt um Bubba Morthens? Mátti ekki dúkka upp með eitthvert annað frægðarmenni þetta laugardagskvöldið? Lifi ég í svona ofboðslega kliskjukenndu dvergríki eða er þetta bara dæmi um sjónvarpsþátt á niðurleið?

Kistan bað mig um að skrifa ritdóm um nýútkomna bók. Eftirfarandi pistill birtist þar á næstunni. Sjálfsagt að birta hann hér líka (eins og greinina um Carver í sumarlok) enda má finna í honum einhverjar hugmyndir mínar um smásagnagerð og frásagnarlist.Maðurinn var alltaf einn


Nú á tímum, þegar frásagnarlistin hefur gengið í gegnum svo marga tískustrauma og formbyltingar og horfið reglulega aftur til eldri hefða, þá er erfitt að segja lengur til um hvað telst nýstárlegt og frumlegt og hvað ekki; jafnframt er sú spurning áleitin hvort það skipti nokkru máli. Hinu er ekki að neita að smásagnasafn Pjeturs Hafstein Lárussonar, Nóttin og alveran, vekur lesanda óhjákvæmilega hugleiðingar af þessu tagi. Hún virkar nefnilega eins og bók sem hefði getað verið gefin út fyrir meira en hálfri öld. Reyndar telst það ekki löstur á verki lengur á tímum algjörrar óreiðu í liststefnum. Sumar sögur bókarinnar minna á raunsæisverk frá fyrri hluta síðustu aldar með hinu algenga smælingja- eða utangarðsminni. Aðrar kalla fram í minninguna módernísk verk með skírskotun til guðlausa extistensíalismans, frá miðri síðustu öld. Í þeim sögum er maðurinn nefnilega aftur orðinn einn, líkt og í fyrsta prósaverki Thors Vilhjálmssonar frá 1951, sem bar titilinn Maðurinn er alltaf einn; titill sem kallast á við ritgerðir existensíalista á borð við Jean-Paul Sartre og Albert Camus. Enn aðrar sögur bókarinnar minna á hrollvekjur og tvífaraminni úr frægum verkum frá þar síðustu aldamótum.

Afbragðsgóðar myndskreytingar Einars Hákonarsonar við bókina auka síðan enn á fortíðartilfinninguna og kalla fram í hugann nokkur myndskreytt íslensk smásagnasöfn frá sjötta, fimmta og enn eldri áratugum síðustu aldar.

Það slæma við fortíðarstemningu bókarinnar er að margt í sögunum virkar klisjukennt. Vitundarspursmálin í módernísku sögunum hreyfa lítið við lesandanum og persónurnar í raunsæisverkunum eru of gamalkunnugar til að lifna á síðunum. Sterk persónusköpun er hins vegar ekki skilyrði í smásagnagerð enda fjalla stuttar smásögur fremur um atvik en persónur. Til lengdar verður smásagnagerð hins vegar ekki spennandi viðfangsefni án þess að höfundur leggi áherslu á persónusköpun. Í þeim skilningi verður góður smásagnahöfundur fyrr eða síðar skáldsagnahöfundur, hvort sem hann skrifar skáldsögur eða heldur sig við smásagnaformið! Smásagan sem náinn ættingi ljóðsins heldur sjaldan velli í löngu höfundarverki enda er hún umfram allt einn þáttur í margbreytileika skáldsagnaformsins. Prósaljóð, vignjettur og örsögur eru síðan annað mál; eru ekki smásögur.

En þrátt fyrir að persónur þessara sagna öðlist ekki skýra mynd í huga lesandans virka margar sögurnar vel og hafa til að bera stemningu og lifandi andrúmsloft, jafnvel þegar skortur á frumleika virðist algjör. Þessu veldur m.a. ágætur stíll höfundar, sem þrátt fyrir að vera háfleygur með köflum einkennist oftast af smekkvísi, góðri málkennd og einfaldleika.

Það sem ræður hins vegar úrslitum um að Nóttin og alveran er þegar upp er staðið fremur ánægjuleg lesning er færni höfundar í sögubyggingu og frásagnartækni. Niðurröðun atvika leikur í höndum hans og gaman er að sjá hvernig hann sneiðir hjá eiginlegu risi í raunsæissögunum sem oftast lýkur með því að dregin hefur verið upp fullnægjandi mynd af aðstæðum og látlaus endirinn er fyllilega við hæfi. Í yfirskilvitlegum sögum, sem oft eru óþægilega kunnuglegar framan af (einmana listamenn í kjallaraherbergjum við miðbæinn, óskýranleg tónlist og önnur undarleg atvik í kirkjugörðum, yfirnáttúruleg myrkvun, lík sem sogar í sig æskuþokka örhrörnandi sögupersónu og fleira af þessu tagi), er endirinn nær alltaf ófyrirsjáanlegur.

Þar með er augljóst að Pjetur Hafstein Lárusson hefur náð tökum á því mikilvægasta og viðkvæmasta í smásagnagerð: frásagnartækninni; hann beitir hófsemi í yfirlýsingum og takmarkar vitneskju þegar við á. Forvitnilegt væri að sjá hann takast á við persónusköpun af fullum krafti og vinna úr söguhugmyndum sem ekki eru jafn þrautreyndar og þær sem hér er að finna.
föstudagur, október 01, 2004

Í símsvörun gildir að byrja ekki að tala um leið og brugðist er við hringingunni. Ef maður hringir í Hreyfil er t.d. alltaf svarað "Bæjarleiðir." Ástæðan er sú að fyrirtækið heitir víst Hreyfill-Bæjarleiðir en símadaman er alltaf búin að segja "Hreyfill" áður en ég næ sambandi.- Í gamla daga, þegar DV var uppi í Þverholti", var oft svarað "Vaff-góðan dag" eða bara "góðan dag", sem var eiginlega fyndnara.

Þetta er meinlaust en ekki mjög pró.

fimmtudagur, september 30, 2004

Ég er að fá nýtt smásagnasafn í hendur í dag, fæ frítt kynningareintak af bók Pjeturs Hafsteins Lárussonar (man ekki hvað bókin heitir, og skyndilega fréttin um hana dottin út af Kistunni). Gaman að leggjast með splunkunýtt smásagnasafn upp í rúm í kvöld. Vona að bókin sé góð, a.m.k. sæmileg.

Ég kallaði mannræningja ítölsku stúlknanna í Írak hryðjuverkabavíana. Ég sá myndirnar af þeim á mbl.is og tók að ímynda mér einhverja svívirðu. Síðan kom í ljós að þeir höfðu ekki snert þær allan tímann en reynt að innræta þeim kennisetningar Íslams. Og svo slepptu þeir þeim. Ekki ætla ég að réttlæta mannrán en þetta sýnir að ég veit ekkert um þessi mál. Nákvæmlega ekki neitt. Og gildir einu þó að ég lesi dagblöðin reglulega.

Menningarverðlaun DV verða afhent í dag en þau drógust um hálft ár vegna umskiptana á blaðinu. Tilnefndir rithöfundar fyrir síðasta ár eru Jón Kalmann með Snarkið í stjörnunum, Ólafur Gunnarsson með Öxina og jörðina, Vigdís Grímsdóttir með þríleik síðustu skáldsagna sinna, Einar Kárason með Storm og Rúnar Helgi Vignisson fyrir þýðinguna á Friðþægingu (Atonement) eftir Ian McEwan. Það gladdi mig auðvitað að sjá vin minn Rúnar Helga á þessum lista, en ekki síst vegna þess að þessi þýðing er mikið afrek. Það er eiginlega eins og McEwan sé orðinn íslenskumælandi að lesa þessa bók. Öxin og jörðin er líka góð en aðrar af tilnefndum bókum hef ég ekki lesið.

miðvikudagur, september 29, 2004

Ég sé að Eiríkur Jónsson er að hrósa Practice í fjölmiðlapistli í DV í dag. Þetta er hárrétt hjá honum. Undanfarið hefur þessi þáttasyrpa hafið sig yfir alla myndaflokka í sjónvarpi fyrir utan Sopranos. Þriggja þátta framhaldssería um morð og réttarhöld í smábæ var afbragðsfín og persónusköpun er á skjön við það sem gengur og gerist í bandarískum sjónvarpsþáttum, ekki síst með persónu James Spader og aukapersónum úr smábænum.

þriðjudagur, september 28, 2004

Kápan er tilbúin í tveimur útgáfum. Ég er að beygja mig undir sölufortölur og vel kápuna með litmyndina. Þær eru báðar góðar. Ég er með próförkina í höndunum í síðasta skipti og líklega fer bókin í prentun á fimmtudaginn. Hún verður líklega gefin út þann 15. okt.

mánudagur, september 27, 2004

Þá er kápan alveg að smella. Spurning er hvort hún verður alveg eins og ég vildi hafa hana en þá fær afar Noir-leg ljósmynd frá um 1960 að njóta sín óbreytt. Einnig er hugsanlegt að önnur útgáfa af sömu mynd, þar sem mannsmyndin er orðin ópersónuleg en með fallegum litum, verði fyrir valinu. Kápuliturinn er að öðru leyti rauðbrúnn. Litmynd er af höfundi aftan á kápu og tekinn nokkur sjens við að lofa hann, m.a. með þremur frekar hástemmdum ummælum gagnrýnenda um fyrri verk.

Bókin fer í prentun fyrir lok vikunnar og kemur líklega út um 15. október, sem er fyrr en ég áætlaði.

Í gær fór ég í haustlitagöngu með fjölskyldunni til Þingvalla. Rétt fyrir heimferðina ámálgaði ég við Erlu þá hugmynd að við myndum borða úti, því við ætluðum að skokka snemma um kvöldið og gott væri að þurfa ekki að standa í neinu eldhússtússi áður. Vanalega tekur Erla hugmyndum af þessu tagi frekar fálega en þá glumdi í bílútvarpinu auglýsing frá KFC um tilboð á 10 kjúklingabitum, pepsi og frönskum kartöflum. Við tókum tilboðinu. Ég er lítið fyrir gos en þeim mun meira fyrir kaffi. Ég vildi því fá kaffi með matnum. Strákurinn sem afgreiddi sagði það þyrfti að hella upp á það og sagðist gera það. Þegar við höfðum lokið snæðingi fór ég fram og spurði eftir kaffinu en þá var það ekki búið að renna niður. Ég freistaði þess að fá koffínskammtinn minn (ég hafði ekki drukkið kaffi síðan um morguninn) rétt áður en við fórum, en þá fékk ég þau skilaboð frá stráknum að það væri svo mikið að gera að hann hefði engan tíma fyrir kaffistúss. Og ég áttaði mig á því að ég hafði engar forsendur til að þrasa út af þessu því staður eins og KFC er ekki veitingastaður í eiginlegum skilningi heldur einhver djúpsteikt tilboðsbúlla. Þegar maður tekur svona tilboðum eins og þessu þá breytist maður nefnilega í skríl og samþykkir að það sé ekki komið fram við mann eins og viðskiptavin. Maður fær mat á lágu verði á ákveðnum forsendum og næg er spurnin eftir svona tilboðum. Í leiðinni afsalar maður sér í raun öllum venjulegum kröfum veitingagestsins. Sá sem hefur einhverja sjálfsvirðingu á ekki að borða á svona búllum. Ég þarf ekki fínan stað til að upplifa mig vel við veitingaborð. Ég þarf bara stað þar sem ég fæ það sem ég panta með brosi á vör þess sem þjónar mér. Og þá finnst mér þess virði að borga dálítið meira.

Alltaf fæ ég hnút í magann þegar ég sé myndir af ítölsku stelpunum sem eru í haldi einhverra hryðjuverkabavíana í Írak. Þær eru 29 ára. Það er einhvern veginn miklu skárra að sjá myndir af fimmtugum karlmönnum í gíslingu.

sunnudagur, september 26, 2004

Veit ekki hvort ég er þunnur í dag. Held ekki. Lenti á Kormáki og Skildi og drakk líklega þrjá dökka Erdinger og reykti þrjá vindla. Ætti varla að vera þunnur af því. Fór með Jóni Sigurðssyni píanóleikara og Guðmundur Björgvinssyni málara og blogggagnýnanda (hann er tæpast hrifinn af færslunni í gær). Hitti Jón Óskar Sólnes og Gunnar Gunnarsson fréttamann sem fór fögrum 0rðum um Uppspunasögu mína í útvarpinu á dögunum. Hann varaði mig við því að hann gæti allt eins tekið mig af lífi í næsta dómi. Líkindin við Raymond Carver voru meðal þess sem helst hreif hann við söguna en fátt veit ég ljúfara en að gagnrýnandi líki mér við Carver. Ég stefni þá að því að verða líkt við Alice Munro á efri árum.

Einnig hitti ég Brynjólf Þór á Fréttablaðinu. Hann er mikill Skagamaður og við ræddum horfurnar á næsta keppnistímabili. Skömmu eftir það fékk ég nánast staðfestingu á því frá ónafngreindum aðila að Guðjón Þórðarson yrði ekki næsti þjálfari KR heldur færi til Grindavíkur.