föstudagur, mars 04, 2005

http://www.djoflaeyjan.com/gamalt/2005/02/meistaraverki_e.php Í þessari athyglisverðu grein er velt upp þeirri spurningu hvort Jón Gnarr sé að framkvæma hinn fullkomna brandara með trúarbullinu í sér (sérstaklega í Bakþönkum Fréttablaðsins) og er leitað líkinga við Andy Kaufman eins og hann birtist okkur í Man on the Moon.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Ekki segja að gamla konan hafi öskrað- komdu með hana og láttu hana öskra.
- Mark Twain

á Rithringnum. Spurningin er samt sú hvort besta lýsingin sé ekki nákvæmlega þessi: "Gamla konan öskraði." Að það sé einmitt aðferðin til að koma með hana og láta hana öskra. Þetta snýst svo mikið um að setja réttu orðin á réttan stað. Ein af mínum uppáhaldsbyrjunum á skáldsögu er svona (Richard Ford: The Sportswriter):

My name is Frank Bascombe.
I am a sportswriter.

Þegar höfundur hefur eitthvað að segja fær einfalt orðalag mikinn þunga og er í rauninni það sem hentar best.

Hvers vegna fæ ég alltaf tilgerðarklígju þegar ég heyri bókmenntafræðing segja "grótesk", "gróteska" og "gróteskan"? Get ekki fært nein rök fyrir því.

Kominn í 26.

Aumkunarvert.

Dauðans.

Hér kemur smá amerísk fjölskylduvæmni (dauðans?). Þetta hefur verið hryllingsvika í vinnunni því nú er ársskýrslutími dauðans. (Náði samt að skrifa einn flottan brauðtexta í morgun mitt í nördalestrinum og var ánæður með það). Af þessum sökum hef ég verið að heiman núna tvö kvöld í röð og líka á sunnudagskvöldið. Þegar ég síðan steig út í morgun til að halda puðinu (eða puði dauðans) áfram hafði dóttirin krítað með stórum bláum stöfum á gangstéttina: Pabbi er bestur (ÁBS). - Þannig er ást barnanna, maður fær hana ókeypis, að þessu sinni fyrir að vera ekki heima og vekja söknuð.

Ársskýrsluhark í vinnunni. Mér finnst fáránlegt að ráðuneytin séu ekki skrifuð með stórum staf. Ég hélt þau væru það. "Samkeppnisstofnun og samgönguráðuneytið ...." Þetta meikar ekki sens.

Meira um Gegni dauðans. Þægilega kemur á óvart að Sendiferðin eftir Raymond Carver (Elephant and other stories) er enn í 18 eintaka útláni en hún kom út vorið 2004. Einhvern veginn nýtur nánast allt einhvers konar velgengni sem Bjartur kemur nálægt. Uppspuni er í 25 eintökum sem er góð tilhugsun enda kom hún út í ágúst. Líklega er eitthvað af þessu krakkar í framhaldsskólum.

Gegnir er mikill gagnagrunnur (og hættið þessu helv ... væli í kommentakerfinu, farið bara sjálf að skrifa og verið ekki með þennan biturleika út í meistarann). Stúlka sem fékk birta sína fyrstu sögu í TMM um daginn er þegar búin að finna sig í Gegni og auk þess eitthvað þar sem hún skrifaði í skóla. Kannski er hálf þjóðin skráð með einhverjar ritsmíðar. Þarna mæti ég sjálfur freelans-harkinu mínu 2002-2003 í furðulegustu greinum sem varðveittar eru í tímaritum.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Afar athyglisvert ef Jay Leno vitnar Michael Jackson í hag. Fyrir utan að gera stólpagrín af meintri barnahneigð Jacksons í þáttum sínum þá virtist mér Jay tala þannig um Jackson fyrir þetta tveimur, þremur árum, að hann væri sannfærður um sekt hans. Leno hefur hins vegar eitthvað fram að færa um móður drengsins sem á að koma Jackson vel í réttarhöldunum.

þriðjudagur, mars 01, 2005

EÖN 27
ÁBS 24
HS 21

Verið ekki feimin við Gegni.

Það er allt bandvitlaust að gera og ég verð frameftir í kvöld. Í hádeginu keypti ég hins vegar bæði Smile og Weather Report í This is Jazz seríunni. Ég keypti auk þess Skugga-Baldur og Fólkið í kjallarnum í kiljum. Ég var reyndar búinn að lesa Skugga-Baldur, tók hana að láni á Bókasafninu, en langaði að kíkja í hana aftur, því hún er lúmsk og kallar eiginlega á endurlestur. Síðan er kiljan svona bráðfalleg.

Ég dílaði við Erlu um að koma til mín vasaspilaranum og ætla að vinna í kvöld með nýju músíkina í eyrunum. Skarpi, er nokkuð skemmtilegra en byrja að hlusta á músík sem maður er nýbúinn að kaupa?

http://krissrokk.blogspot.com/2005_02_01_krissrokk_archive.html Krissrokk játar sig sigraðan í stuttu karpi okkar um Regnhlífarnar í New York. Það mætti kalla hann Ed Wood rökræðnanna en Ed Wood er eins og margir vita talinn lélegasti kvikmyndagerðarmaður sögunnar.

http://www.visir.is/?PageID=539&NewsID=31894 Egill Helga er hins vegar sammála mér.

http://www.kistan.is/efni.asp?n=3448&f=15&u=95 Undarleg grein á Kistunni þar sem faðir er hylltur og líka gerð uppreisn gegn honum. Jæja, kannski lágkúra að tengja málefni blóðskyldleika með þessum hætti, sleppum því, en dálítið undarleg er sú tilhneiging að skoða heiminn alltaf í kynslóðum þar sem hver kynslóð er í raun bara fæðingarár á einum tugi. Bjartur hefur eins og allir vita sótt gríðarlega í sig veðrið á útgáfumarkaðnum og slíkt ýtir undir viðburði eins og það sem gerðist hjá Sjón. Svo einfalt er það. Bók Einars Más var auðvitað frábær og verðlaun hans komu engum á óvart á sínum tíma. Er ekki annars sirka 6 ára aldursmunur á Einari Má og útgefanda Sjóns, 8 ára aldursmunur á Sjón og Einari Má?

Þetta er samkvæmisleikur.

mánudagur, febrúar 28, 2005

Á morgun er útborgunardagur og þá sukka ég dálítið: Kaupi playmo handa stráknum en handa sjálfum mér líklega Smile með Brian Wilson, eitthvað með Weather Report (byrjandi þar) og kannski aðra Who-plötu. Eflaust kaupi ég líka Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttir í kilju. Ætla rétt að vona að ég verði ekki fyrir vonbrigðum með hana. Ætli ég þegi þá ekki bara yfir því.

Nú, Munro og Divine Comedy verða væntanlega póstlögð bráðlega. Fæ Erlu til að ganga frá því á morgun.

Karlarokk og kvenhöfundar, er það ekki málið?

Ég bý ekki í sömu borginni og sumir aðrir Reykvíkingar. Yngri systir mín og mágur eru nýflutt í Bryggjuhverfið og þangað heimsækjum við þau á föstudagskvöldum til að horfa á Idol (og fá gráa fiðringinn yfir Heiðu og Hildi Völu). Hverfið minnir mig pínulítið á sum hverfi í evrópskum borgum, þröngar götur á milli húsanna og það er eitthvað gamalkunnugt við byggingarlag þeirra, gæti þó verið ímyndun og fáfræði mín. En í þessu hverfi er ekkert gamalt hús að finna og hvergi stingandi strá. Einhvers staðar langt í burtu eru krár og kannski sjoppa á leiðinni. Ekki er hægt að horfa út á hafið án þess að sjá krana í leiðinni. Systir mín er enn í fæðingarorlofi en mágur minn vinnur í Kópavogi og fer þeirra ferða vitaskuld á bíl. Þúsundir nágranna þeirra koma líklega aldrei í miðbæinn en fara í Smáralind og kannski í Kringluna til að versla.

Ég bý á Tómasarhaga og sæki vinnu á Laufásveg. Í hádeginu geng ég stundum eftir Haðarstíg. Um daginn settist þar stór hrafn upp á ljósastaur og krunkaði, en svartur köttur, á stærð við hrafninn, stóð á götunni og fylgdist með honum. Hressó er kostur niðri í bæ og svo er hægt að rölta upp á Hlemm, fyrir utan öll kaffihúsin á Laugavegi. -
Eða bara rölta um Þingholtin. Þar er einn glugginn fullur af köttum, annar af tré- og postulínsfílum.

Um helgar er hægt að fara á stíginn niðri við Ægissíðu og labba (eða skokkhlunkast) út í Nauthólsvík. Á sumrin er það svo KR-völlurinn.

Myndi ég vilja skipta við þau? Nei, ég myndi frekar flytja út á land. Sem ég geri heldur ekki.

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Ég hef áður minnst á vin minn sem tekur út fyrir að líta á þessa síðu mína og segir að með henni sé ég endanlega að mála mig út í horn í bókmenntaheiminum. Rithöfundar eigi að tjá sig eins og Hallgrímur Helga og Guðmundur Andri, með einni og einni skarpri grein í blöðum en ekki vera að blaðra um sjálfa sig á netinu. Þessir tveir eiga reyndar alla mína virðingu, ekki vantar það. Nú, hvað er fleira að gerast? Ungur höfundur gerir reglulega grín að mér og ég geri reglulega grín að honum. Hermann Stefánsson kemur inn í þetta. Ég fletti honum upp í Gegni. Hann ræðir um þann sið minn. EÖN segist vera fyrirmynd persónu í skáldsögu Braga Ólafssonar. Stefán Máni (sem ég þekki ekki neitt) útlistar efni næstu skáldsagna sinna, óskrifaðra. Víða er fjalla um efni þessara bóka á netinu.

Hefur netið breytt tjáningarmáta höfunda um sjálfa sig og þjóðfélagið eða erum við ofannefndir bara vitleysingar?

Í sjálfu sér skiptir það engu máli. Ég veit ekki hvaða áhrif þessir leikir hafa á virðingu okkar í bókmenntaheiminu, ef nokkra. Ég er hins vegar sannfærður um að þeir hafa nákvæmlega ekkert með bækur okkar að gera, skrifaðar sem óskrifaðar. Þetta er skemmtiefni fyrir ákveðinn hóp netverja.