föstudagur, september 02, 2005

Ég hélt að þegar náttúruhamfarir yrðu í vestrænum ríkjum þá tæki fólk höndum saman og stjórnvöld kæmu borgurum til hjálpar. Þessu er ekki að heilsa í Bandaríkjunum, þar ríkir óöld. Hvernig hefðu Bandaríkjamenn tekið á Vestmannaeyjagosinu?

Ég keypti Jack Daniels pela í hádeginu fyrir samkvæmið í kvöld. Síðan lötraði ég á hjólinu framhjá Café París og varð starsýnt á kunnuglegt andlit. Ég gat samt ekki komið manninum fyrir mig. Þegar hann var að hverfa úr augsýn bar hann hins vegar kennsl á mig og nikkaði. Þetta var David Winnie.

Mér er sagt að nýtt smásagnasafn eftir Joyce Carol Oates sé til sölu í Iðu. Ég fer þá þangað í hádeginu. Gunnar Randversson segir mér að sænsk blöð geri því skóna árlega að hún fái Nóbelinn. Hún er undarlega afkastamikil, skrifar 2-3 bækur á ári, stundum meira.

Hvað fellur meistaranum ekki í geð

Blogg eftir fólk sem segist vera að lesa nýju Harry Potter bókina, að það hafi nýlega fengið "kjánahroll" yfir einhverju og að einhver sé bloggari dauðans; og sem heldur í þokkabót (það skín af textanum) að það sé rosalega frumlegt.

Líkamsgatanir.

Húðflúr.

Svokallað raunveruleikasjónvarp.

Fólk sem er alltaf að væla út af og hneykslast á klámi. Maður fær strax á tilfinninguna hvað það er sem það þarf á að halda.

Margt fleira. Látum þetta nægja í bili.

Ég er að hlusta á eldgamalt viðtal á BBC við Roger Daltrey. Hann er spurður um andvirði þeirra hljóðfæra sem The Who hafi eyðilagt á sviði. Daltrey giskar á 6 þús. pund.

fimmtudagur, september 01, 2005

Kunnugleg tilkynning um mannfagnað

Þá er komið að því. Ég býð skáldnördum og vitleysingum til mín annað kvöld og les kannski e-ð fyrir þá. Síðan er það Ölstofan. Við erum að tala um nokkra viskísjússa, dökkblá teinótt jakkaföt, sakleysislega samræður, í bólið klukkan tvö.

Erla: Hvað segirðu, fórstu svo á fund með henni?
ÁBS: Ha nei, ég var ekkert á fundinum. Það þurfti ekkert. En hún var víst mjög ánægð með tillögurnar mínar.
Erla: Ertu skotinn í henni?
ÁBS: Hvað meinarðu? Ég þekki hana ekkert.
Erla: En af hverju verðurðu eins og feiminn krakki ef maður minnist á hana?
ÁBS: Ja, hún orkar alveg á mig en ég þekki hana ekkert og hún veit ekkert hver ég er.
Erla: Er hún ekki líka harðgift?
ÁBS: Jú, er það ekki?

Erla flettir upp í tölvunni.

Erla: Jújú, gift og á tvö börn.

Brennslan mín

1. Inca Roads - Frank Zappa
2. Wish You Were Here - Pink Floyd
3. Roundabout - Yes
4. Won´t Be Fooled Again - The Who
5. Out In the Street - Bruce Springsteen
6. In a Silent Way - Miles Davies
7. Monty Cut a Raw Deal - R.E.M.
8. Sticks and Stones - Divine Comedy
9. Nothing Man - Pearl Jam
10. Shook Me All Night Long - AC/DC

Kl. 11:17

Prófarkalestur, skrifa í orðastað markaðsstjóra, setja sig inn í nýja vöru

Þriggja manna herbergi, skrifborð, tölvur. Finnbogi á móti mér slær nokkra tóna á hljómborðið sitt.

Ég: Sketchers, ósamstæðir sokkar, Calvin Klein, Dressmann.

Borðið er þakið papprísdrasli. Ég skrifaði síðast í skáldsögunni í hádeginu í gær, það voru nokkrar línur. Nú stefni ég á hádegið á eftir og síðan kvöldið.

Ég hef ekki undan því að þurrka út spam-drasl úr kommentakerfinu.

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Eftir nokkra daga verður frumsýnd kvikmynd eftir Robert Douglas, Strákarnir okkar. Myndin fjallar um knattspyrnulið samkynhneigðra karlmanna. Nú vill svo til að a) Mér hefur líkað við myndir Roberts Douglas b) Ég er hlynntur algjöru jafnrétti samkynhneigðra og gagnkynhneigðra c) Ég hef áhuga á fótbolta

En það er nákvæmlega ekkert sem vekur áhuga minn á þessari kvikmynd. Ég get ekki pínt mig til að fá hinn minnsta áhuga á sögu sem fjallar um knattspyrnulið samkynhneigðra, ekki frekar en ég gæti haft áhuga á að sækja ráðstefnu um þunglyndi eða sjá mynd um handboltalið iktsjúkra.

Hvað er eiginlega að mér? Er ég að fara að missa af frábærri mynd, vegna ... nei, við getum eiginlega ekki sagt vegna fordóma.

Líklega fylgist ég ekki nógu vel með fréttum vegna þess að ég er alltaf að rekast á fréttir á mbl.is og visir.is þess efnis að einhver sem var týndur sé fundinn aftur. En aldrei sé ég fréttirnar um að einhver sé týndur, bara þá sem segir að hann hafi fundist.

http://www.deiglan.com/index.php?itemid=9049 Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni að kaffi væri hollt. Þeir sem vara við því hafa aldrei getað bent mér á neitt konkret sem stríði gegn kaffineyslu. Kaffi getur að vísu aukið streitu en slíku er hægt að stjórna.

Við fengum tryggingasölumann í heimsókn í kvöld. Honum mæltist vel. Heimsóknin tók tvær klukkustundir. Mér flaug skyndilega í hug hvort það gæti gerst að illa upplagður tryggingasölumaður missti stjórn á sér og yrði skapillur í heimsókn. Mér þykir það fyndin tilhugsun.

Ég skokkaði 8 kílómetra áður en hann kom.

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Það er tilhlökkunarefni að fara út að skokka í hægviðri og rigningu, 8-9 kílóum léttari en undanfarin ár og í góðu þolformi. Ég get varla beðið.

En nú þarf ég að fara að skrifa auglýsingar, segja þeir.

Ég er í frekar stóru þýðingarverkefni núna og finnst það fínt. Ég leysi slík verkefni yfirleitt af mikilli vandvirkni og fagmennsku en ég nenni ekki að brjóta heilann um skólakrakka sem verða ástfangin og borða popp saman eða kyssast í banka og skrá sig í námsmannaþjónustuna. Látum Eyvind um svoleiðis.

Ég vaknaði með tóman maga og sáttan huga kl. hálfátta í morgun. Kom börnunum á fætur, fékk mér skyr. Lagði mig aftur og dröslaðist fram úr hálftíu. Fór í sturtu. Fékk mér kaffi. Hafði hvorki tíma til að raka mig né spila The Who. Valdi mér föt eftir veðri, það var rigning og ég þurfti aftur í gallabuxurnar. Hjólaði í vinnuna. Það er erfitt að hjóla upp Bragagötuna nývaknaður en ákaflega hressandi.

Mér líður ekki lengur eins og fátæklingi enda nálgast útborgunardagur óðum. Í gærkvöld fór ég yfir eigur mínar í huganum: Tæplega 120 fermetra íbúð. Dálítið sparifé. Hugguleg eiginkona í kjörþyngd. Tvö falleg börn sem elska mig (af því ég læt of mikið eftir þeim). Konan á nýjan jeppling og ég á nýtt reiðhjól. Ég á nokkur jakkaföt þó að ég hafi ekki eignast ný slík í 15 mánuði. Auk þess er ég farinn að komast aftur í nokkur gömul jakkaföt en þau eru úr tísku. Ég á mikið af bókum en bækur eru nánast verðlausar. Ég á gamalt sjónvarp, VHS og DVD. Fartölvurnar okkar eru í eigu vinnustaðanna.

Á mælikvarða hvers er ég öreigi?
Á mælikvarða hvers er ég ríkur?

Í kvöld læt ég persónu í sögunni skrifa tölvupóst og nota broskalla í bréfinu. Það er mjög ólíkt sjálfum mér.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Ég hjólaði fram á kjökrandi stúlkubarn í Lækjargötunni áðan. Hún sat flötum beinum í götunni, sirka 11-12 ára, við hlið hennar hlaupahjólið sem hún hafði dottið af. Hún hafði klætt sig úr skónum og appelsínugulir sokkar voru frekar áberandi. Hún sagðist eiga heima á Laufásveginum, sem kom sér vel, og ég rétti henni einfaldlega gemsann og bauð henni að hringja heim. Í símanum var henni tjáð að hún yrði sótt undir eins. Hún hafði rænu á að þakka fallega fyrir sig, er líklega frá einhverju góðu heimili hérna í götunni, fallegu uppgerðu steinhúsi frá 3. áratugnum eða fyrr. Ég veit ekki hvort hún er fótbrotin eða brákuð, tel það ólíklegt, en a.m.k. þótti mér ekki ráðlegt að reisa hana á fætur fyrst fjölskyldan var svona skammt undan.

Þegar ég kvaddi hana rifjaðist upp fyrir mér að ég handleggbrotnaði sjálfur þegar ég datt einstaklega klaufalega af reiðhjóli á Framnesveginum sumarið 1975. Þá var ég á 13. ári. Það ár voru tölvur afar óljóst hugtak í huga mér, líklega e-k stórar vélar sem tóku yfir heilt herbergi. Þess vegna gat mig ekki grunað þá að 30 árum síðar myndi ég skrifa um það í tölvu að hafa rekist á barn sem datt af hlaupahjóli; og enn síður að fjöldi manna myndi lesa frásögnina.

Á Laufásveginum hjólaði ég framhjá svörtum karlmannssokki sem lá á miðri götunni. Það er fræðilegur möguleiki að þessi sokkur sé af mér en til þess þarf nokkuð langa og snúna röð tilviljana.

Guðjón Þórðarson er gjörsamlega að slá í gegn í Notts County. Liðið var að vinna Mansfield á útivelli, 3-2, tvö mörk á lokakaflanum. Notts County er nú með þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar. Ég kíkti á spjallborðið hjá Notts County og þar eru menn vitanlega ánægðir með Íslendinginn.

Rosalega er það furðuleg iðja að öfundast út í og ofsækja lítt þekkta rithöfunda á borð við mig og Hermann Stefánsson. Það er nánast heillandi sérviska.

Enn sérkennilegri er samt sú tilhugsun að íbúar 1,3 milljóna manna borgar séu búnir að yfirgefa hana vegna fellibyls. Náttúruhamfarir eru betri en stríðsátök og ofbeldi manna. Börnin í New Orleans eru eflaust hrædd mörg hver en þau gætu átt eftir að komast frá þessu með góðar minningar.

7 stiga hiti í rigningu og austanátt er hlýrra en 10 stiga hiti í þurri og sólbjartri norðanátt.

Stundum hafa einhverjir prestar að rífast eða prestur og sóknarbörn að rífast verið aðalfréttaefnið hér á landi svo vikum skiptir. Þegar slíkt gerist fær maður virkilega á tilfinninguna að maður búi í dvergríki. Núna standa yfir deilur í Garðasókn en þær hafa þó ekki náð að tröllríða fréttatímum. En munið þið hvernig þetta var stundum?

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Ný tilvitnun.

Er á Borgarbókasafninu og þar er þetta fína þráðlausa net. Ég vissi ekki af því. Fór í sund áðan og synti 900 metra. Það er ekki mikið. Skokk aftur á morgun. Ég er enn ekki laus við næturátið. Krossa fingur fyrir næstu nótt.

Þróttur - KR í kvöld. Fer með Kjartani á Laugardalsvöllinn.