laugardagur, maí 14, 2005

Fyrir tveimur árum eða hvenær sem er hefði einhvern getað dreymt að hann sæi Bobby Fischer á stætisvagnabiðstöð í Reykjavík, hann stæði þar íklæddur gallaskyrtu og rykfrakka, með derhúfu á höfðinu, og stigi síðan upp í sjöuna sem æki með hann vestureftir. Fólk dreymir svo margt og þetta er svona týpískur draumur. En undir lok föstudagsins þá gerðist nákvæmlega þetta. Ég horfði á Bobby Fischer sem stóð um 50 metra frá mér á næstu stoppistöð og beið eftir næsta vagni, rétt eins og ég. Hann fór í sjöuna, ég í fimmuna. Fólk veitti honum nánast enga athygli.

Það sem þig dreymir í nótt, lesandi góður, gæti hæglega verið raunveruleikinn síðar. Fyrir tilviljun þá, nota bene, ég trúi ekki á forspárgildið.

föstudagur, maí 13, 2005

Gleði í bata

Ég er svo óskaplega glaður að vera hættur að skjóta á fólk og vera með skítkast, þess í stað hrósa ég fólki í hjartans einlægni eins og færslan að neðan ber vitni um. Halelúja.

http://www.bokmenntir.is/displayer.asp?cat_id=383

Umræðuvettvangur um gagnrýnanda

Hvernig gagnrýnandi finnst ykkur Úlfhildur Dagsdóttir vera? Mér finnst hún hafa sótt mjög í sig veðrið upp á síðkastið. Hún er alltaf að verða betri og betri, sérstaklega alveg undir það síðasta.


http://www.bokmenntir.is/displayer.asp?cat_id=383

http://www.bokmenntir.is/displayer.asp?cat_id=383 Eiríkur Örn fær arfaslakan dóm á bokmenntir.is hjá Úlfhildi Dagsdóttur. Ég fékk reyndar líka slæman dóm á þessum vef fyrir jólin, eftir Kristínu Viðarsdóttur. Þetta er harður bókmenntavefur.

Nýja tilvitnunin er úr sögunni Mánudagur sem ég skrifaði sumarið 1993. Uppkast í París þar sem við Erla vorum í brúðkaupsferð (ári fyrir brúðkaupið, við vorum svo praktísk að við skiptum ferð og brúðkaupi milli ára). Ég var þrítugur, 95 kg. Starfaði við markaðsleiki á símatorgi niðri í Miðlun við Ægisgötu, auk þess að lesa inn íþróttafréttir (ýttu á einn fyrir Atla Eðvalds, tvo fyrir Pétur Pétursson og þrjá fyrir Ásgeir Elíasson. - Og það var rétt!) . Var byrjaður að ganga í jakkafötum, oftast úr polyester. Með þessari sögu varð ljóst að ég var að ná tökum á raunsæisstíl og söguuppbyggingu sem hentaði mér og rímaði við það sem bjó í huga mér og hjarta. Ég var sannfærður um að heimurinn kæmi fljótlega til mín og tæki til við að lesa. En hann er ekki kominn ennþá, ja nema þannig að hann vill bara lesa blogg og hlusta á útvarpspistla.

fimmtudagur, maí 12, 2005

Tekur djöfulleg við af sprúðlandi? Ætti höfundurinn að baktryggja sig með því að kalla skáldsöguna Djöfullega sprúðlandi eða Sprúðlandi djöfulleg?

http://www.kistan.is/efni.asp?n=3708&f=1&u=14 Það er rétt sem sumir segja, þetta er djöfullega asnalegur ritdómur. Hann er m.a.s. verri en dómurinn sem ég skrifaði um Jónas Þorbjarnarson. Hættið svo að smjaðra svona ofboðslega fyrir þessum höfundi svo ég geti farið að lesa hann með opnum huga.

Jakkaslá

Lækjargata, kl. 12.53 í dag. Hægur suðaustan andvari, hiti 7 °C. Egill Helgason (leðurjakki, svartur bolur, gallabuxur, frísklegt yfirbragð, grennri en oft áður) um Tinnu í Eymundsson:

"Hún er bráðfyndin."

Áður: Snætt á Jómfrúnni (þarf bara að sleppa brauðinu undir allri hrúgunni). Haugur af Sjálfstæðismönnum og öðru fólki sem Miss Lillendahl dýrkar. Umferðarstofa leggur drög að næsta hneyksli við gluggaborðið. Hólmsteinn með lærisveinum. Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi. Þurrkuntulegur náungi í Audi-bol og ljótum sandölum þumbast við þjóninn. Alls staðar eru nördarnir, líka innan um rjómann á svona stað. - Ég ætti að bjóða mömmu á Jómfrúna fljótlega, hún myndi fíla sig vel þar.

miðvikudagur, maí 11, 2005

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1138077 Þessu var ég búinn að spá, eins og þið eigið að muna.

Nú verða sagðar fréttir

Pistlarnir verða í Speglinum á Rás 1 og Rás 2 á föstudögum frá með 3. júní. ÁBS og EÖN skipta föstudögunum á milli sín.

Efnisval er frjálst með þessum undantekningum:

ÁBS má ekki skjóta á EÖN og ekki tala um KR.

EÖN má ekki skjóta á ÁBS og ekki tala um ... hvað heitir fótboltaliðið á Ísafirði?

Nærfataskúffa light

Strákurinn var á kynningu í Melaskóla í gær. Tveggja klukkustunda kennsla. Móðir vinar hans hringdi í mig, ég hélt það væri Erla og ávarpaði hana með gælunafni sem ég nota bara á Erlu. Það vakti lukku.

Erla er að fá Hondusmájeppann og er enn að burðast við að selja Toyotuna. Líklegt að vinnufélagi minn kaupi Toyotuna. Erla er karlmaðurinn á heimilinu. Karlmaðurinn og konan. Ég er eiginlega hvorugt. Viðundur sem reynir að hjálpa til.

Guttesen heldur að fólk sé hrætt við meistarann. Meistarinn segir: Verið ekki hrædd, en gætið ykkar.

Í kvöld er það skokk, prófundirbúningur Freyju og svo vonandi verður næturþrek til skrifta, því sagan lítur vel út í augnablikinu. Er að hugsa um að taka vinnufartölvuna heim með mér og skrifa á hana því hún er ekki með þráðlausu netkorti og því verð ég offline og læt ekki skemmtilega blogglesendur trufla mig.

Svo þarf ég að fara að setja eitthvað þjóðmálalegt á síðuna áður en Egill lokar tenglinum á mig. Eitthvað er í farvatninu en bíður næstu daga.

Vinnufélagi, kona um fimmtugt, fékk tvær bækur eftir mig lánaðar (Sumarið 1970 og Tvisvar á ævinni), las þær og varð næstum orðlaus af undrun og hrifningu. Það mátti eiginlega lesa úr umsögn hennar að hana hefði ekki órað fyrir því að svona vitleysingur eins og ég gæti skrifað svona góðar sögur.

Ég verð pistlahöfundur í sumar. Í útvarpi. Er að hugsa um að fá Kristjón Kormák til að lesa pistlana inn fyrir mig.

Heldur betur háskóla

Djöfull er Townshend flottur þegar hann stekkur hátt upp í loft með gítarinn í höndunum (hann er ekki að brjóta hann, hann er að spila, kominn yfir þrítugt, dálítið þroskaður). Þetta eru myndir í bæklingnum sem fylgir Who are you. Ég er alltaf að hlusta á The Who núna, átti þá alltaf eftir.

þriðjudagur, maí 10, 2005

Máttur tískuorðsins

Væri ekki dálítið sniðugt trikk hjá einhverjum höfundi sem er með skáldsögu í haust að kalla hana Sprúðlandi. Gæti sá höfundur smeygt sér inn í undirvitund helstu gagnrýnenda og uppskorið einróma lof?

Mér finnst Blaðið svona frekar bragðdauft í upphafi. Minnir á Fréttablaðið frá 2002. En það er kannski ætlunin, vel má vera að þessi fjölmiðill nái til þeirra sem vilja stuttar fréttir, en Fréttablaðið hefur þróast í þá átt að vera efnismikið og vandað. Leiðari Blaðsins í dag var reyndar ansi góður en þar var með ákveðnum og rökföstum (en ekki Sjálfstæðisbláum) hætti hvatt til þess að R-listinn legði sjálfan sig niður. - Dálkahöfundur blaðsins í gær var Þorgrímur Þráinsson og skrifaði hann um strák sem var handalaus en tókst samt að verða tennis- eða badmintonleikari, man ekki hvort. Með fullri virðingu þá ætti blaðið að leita sér að bitastæðari pistlahöfundum en Þorgrími, ja eða a.m.k. í bland við hann. Ég er þar með ekki að bjóða mig fram enda hef ég meira en nóg að gera.

Er ég að verða lesblindur?

Þá verð ég fljótlega rekinn úr vinnunni. Síðasta færsla er byggð á mislestri.

Óskhyggja lesenda minna

Ég hrósa vini mínum fyrir bókaútgáfuna hans og þá tryllist kommentakerfið. Sumir lesendur taka að ímynda sér að ég sé aftur kominn í skítkastið. Hvað á nú þetta að þýða? Slappiði af, mín kæru. Skítkast er eitt, skoðanir eru annað.

Ég hef ekki farið í grafgötur með álit mitt á rithöfundahæfileikum tiltekins vinar míns (eða kunningja?) en öðru máli gegnir um útgáfustússið hans. Einhvers staðar sá ég gert lítið úr því og finnst mér það ekki maklegt. Hann hefur t.d. gefið út ágætar bækur eftir Geirlaug Magnússon. Meðal vortitlana hjá Lafleur eru síðan skáldsaga eftir Eyvind P. Eiríksson og ljóðabók eftir Hörð Gunnarsson. Báðar gætu verið allrar athygli verðar fyrir þá fordóma- og tískulausu. Mér líkaði nokkuð vel við síðustu ljóðabók Harðar og ætla að tékka á þessari.

mánudagur, maí 09, 2005

Ég er að glugga í greinasafnið hans Jakobs F. Ásgeirssonar, Frá mínum bæjardyrum séð. Ég er sammála sumu, ósammála öðru og hlutlaus í enn öðru. En allar greinarnar sem ég hef lesið eru skemmtilegar. Fyrir utan eindregnar pólitískar skoðanir höfundar sem eflaust falla mjög misjafnlega í kramið þá ber mikið á sólíd hversdagsskynsemi og brjóstviti sem stillt er upp gegn viðteknum skoðunum tíðarandans. Það er mjög hressandi að lesa slíkt. Sérstaklega verður maður var við þetta í greinum um mataræði og reykingar.

En það er semsagt óhætt að fullyrða að Jakob flíki ekki hlutleysi og það sótti að mér hlátur þegar ég renndi yfir titlana í efnisyfirliti. Raði ég síðan hluta þeirra upp, þ.e. bara þeim hluta sem hnígur í sömu átt, verður þetta enn fyndnara:

R-lista siðferði
Arnarsson & Hjörvar sf.
Sigur Davíðs
Valdafýsn flokkaflakkaranna
Þjóðviljinn gengur aftur
Um dramb Davíðs
Ruglið um bláu höndina
Sovéttrúboðið tekið til bæna
Af forstokkuðum vinstri mönnum
Kaldastríðsstimpillinn er gæðastimpill
Baugur-Ísland, óskalandið!
Með Baug yfir höfði sér
Pólitísk staðfesta og Baugsflokkurinn

Ítreka að ég fæ út þennan lista með því að hlaupa yfir mikið af titlum en greinarnar skipta einhverjum tugum.

Bókin er smekkleg í útliti og vel frágengin. Jakob er að gera fína hluti með þessari útgáfu sinni, Bókafélaginu Uglu, og nokkrir athyglisverðir titlar hafa komið út hjá honum undanfarið.

Pezus er 33 ára í dag www.pezus.blogspot.com Innilega til hamingju með það. En er einhver hér sammála honum um það að ég sé fallinn á bindindi vegna heilræðanna góðu? Ég neita því.

Ég skrifaði 700 orð í skáldsögunni í kvöld í bland við bloggið. Bestu vinnustundirnar í langan tíma. Góða nótt.

Nokkur heilræði til ungu kynslóðarinnar

a) Ef maður er alltaf fullur þá fær maður oft samviskubit (líka ef maður étur of mikið).

b) Það er allt í lagi að vera með fýlusvip.

c) Það er allt í lagi að vera með hanakamb á foreldraskemmtunum í Vesturbænum (en ekki fullur) .

d) Það er ekki rétt að vont fólk stígi frekar í ælu en gott fólk. - Það er ekki til neinn guð sem refsar góðu fólki sem heldur stundum að það sé vont.

e) Það er rangt að hata KR. Þeir sem ekki geta elskað KR eiga að leiða KR hjá sér.

f) Þó að það geti verið gaman að lesa Bókina um veginn þá er glapræði að fá Taóisma á heilann og láta hann stjórna lífi sínu. Þá er alveg eins gott að vera alltaf fullur, eða því sem næst.

sunnudagur, maí 08, 2005

Smá Barnalandsfíling á sunnudagskveldi. Alltaf þykir manni jafnfyndið þegar litlir krakkar tala fullorðinslega eða hátíðlega. Stelpan hans Jóns Óskars, Salvör, er reyndar alveg spes tilfelli því hún talar vandaða íslensku frá því sirka um 1960 eða fyrr, út í gegn, og verður alltaf jafnhissa þegar maður hlær að orðfæri hennar. - En litlu, venjulegu tilfellin eru líka fyndin. Kjartan, strákurinn minn, er fimm ára, og þessa dagana er hann mikið fyrir að segja "líf mitt." Um daginn sagði hann: "Líf mitt er leiðinlegt." - Þó hafði hann verið mjög kátur allan morguninn og þessi fullyrðing kom eins og þruma úr heiðskíru lofti (eins og Salvör hefði orðað það). Ástæðan var sú að stóra byssan hans var týnd.

Í gærkvöld horfði ég í annað sinn á hina dásamlegu mynd "All or Nothing" eftir að hafa rekið augun í heilalausan viðbjóð sem sýndur var á undan, Miss Congengiality (veit ekki hvort þetta er rétt stafsett). Ekki ætla ég að líkja mér við Mike Leigh, en grámyglulegur hversdagsleikinn og doðinn í myndunum hans minnir mig samt á margar sögurnar mínar. Fólk er misjafnt, sumir eru sprelllifandi og meðvitaðir, aðrir eru dofnir, máttvana og ofurseldir vananum. Ein erfiðasta glíman við doðann á sér stað í hjónabandinu, líka í góðum hjónaböndum. Um það fjalla ég í sögunni "Eftir sumarhúsið" í síðustu bókinni minni. Einhver sagði að veruleiki þeirrar sögu væri nánast áþreifanlegur. - Annað sem ég hef oft fjallað um er hegðunarmynstur sem endurtekur sig í fjölskyldum og jafnvel heilum ættum. Einhvers konar vítahringur mistaka, meðvirkni og sjálfseyðileggingar. Ég er alltaf að rekast á þetta í lífinu, milli þess sem ég horfi á sljóa og dofna fólkið í Tiger, á Kaffisetrinu og víðar; vítahringinn upplifi ég meira í gegnum persónuleg kynni og hann gerir mig alltaf jafn sorgmæddan.

Ég er farinn að verða var við það í seinni tíð að þeir sem líkar ekki sögurnar mínar, bæði munnlegir og skriflegir gagnrýnendur, vilja meina að sýnin í þeim sé of myrk og grámygluleg til að teljast raunsæisleg. Að fólk sé miklu hressara og gáfaðra en þetta. Ég verð orðlaus af undrun (og síðan verulega pirraður) þegar fólk sem ég tel jafnvel standa mér framar að mörgu leyti segir: "Þarf allt að að vera svona ömurlegt og ljótt í sögunum þínum?" Og dæmir þær síðan úr leik. Mér finnst þessir lesendur gera of mikið úr ömurleika sagna minna. En gott og vel, kannski eru sumar þeirra dálítið ömurlegar. En reynið ekki að telja ykkur trú um að ég sé ekki að segja sannleikann! Ég er að lýsa veruleika margra, í það minnsta.

Á hinn bóginn hefur Richard Ford sagt að það sé auðvelt að skrifa um hörmungar og böl, erfiðara og eftirsóknarverðara að lýsa lífinu sem blöndu af sorg og gleði, eins og það. Þetta er rétt hjá honum. En til þess þarf maður meira pláss en 10 síðna smásögu. Ég þarf meira pláss en það í bili.