Erla pantaði Honda CV-R (veit ekki hvort þetta er rétt skrifað) jeppling og við fáum hann afhentan í maí. Það þarf að bíða eftir bílum í góðæri Davíðs og Halldórs og Baugs og Björgúlfsfeðga og Krónunnar og Þráins Bertelssonar ... Ég held að flestir viti að ég er ekki með bílpróf. Ég tók próf árið 1982 af því bróðir minn, þáverandi atvinnubílstjóri, heimtaði það og borgaði kennsluna. Mér gekk vel í munnlega prófinu en féll á ökuprófinu vegna þess að ég ók yfir á rauðu beygjuljósi. Ég tók prófið aftur mánuði síðar og þá panikeraði ég og gerði allt vitlaust, ók yfir óbrotna línu, ók vitlausu megin inn í einstefnugötu, o.sfrv. - Líklega þremur mánuðum eftir að ég fór í fyrsta ökutímann tók ég prófið í þriðja skipti og náði því. - Ekki hvarflaði að mér að kaupa mér bíl en afar misjafnlega gekk mér að keyra þegar ég fékk lánaðan bíl hjá systkinum mínum eða mömmu. Stundum gekk vel en stundum fór allt í hund og kött. Árin liðu, ég var töluvert erlendis og úti á landi, í og með að safna efni í litlu perlurnar sem ég hef skrifað og gefið út síðustu árin, en sjaldan snerti ég stýrishjól. Þar að auki endurnýjaði ég aldrei skírteinið og það varð því ógilt fyrir meira en tveimur áratugum. Erla hefur alltaf séð um aksturinn, stundum fer það í taugarnar á henni, en tilhugsunin um að ég sé einhvers staðar undir stýri úti í brjálaðri umferðinni finnst henni eiginlega ennþá verri en prófleysið mitt. - Engu að síður vaknar nú dálítill áhugi á því að taka bílpróf fyrst það kemur nýr bíll og þar að auki sjálfskiptur.
En það þarf að fara að spara, mikið af ferðum framundan ( og Mannheimar kostuðu sitt), bíllinn étur upp spariféð o.s.frv. - Kannski drullast ég í þetta á næsta ári. Börnin langar til að sjá mig einhvern tíma keyra.